Fara í efni
Fréttir

Spennandi ræktun – og nú geta allir smakkað

Giacomo Montanelli og Serena Pedrana sem eiga og reka Rækta Microfarm. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Áhugavert fyrirtæki, Rækta Microfarm, tók í haust til starfa á Akureyri en þar ræktar ítalska parið, Giacomo Montanelli og Serena Pedrana grænsprettur, sem hún kallar svo – microgreens, á ensku – á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt. Um er að ræða alls kyns kryddjurtir, grænmeti og sælkerasveppi.

Opið hús á sunnudaginn

Margir muna eftir – og sakna – Serenu á Amtsbókasafninu þar sem hún rak veitingastaðinn Orðakaffi við frábæran orðstír. Giacomo vann við að koma á fót kálverinu Urban Farm á Hótel Akureyri við Hafnarstræti fyrir nokkrum misserum, en þar var ræktað kálmeti, kryddjurtir, sprettur og fleira. Þegar starfseminni var hætt, vegna mikilla framkvæmda sem fyrirhugaðar eru við stækkun húsnæðis hótelsins, ákvað Giacomo að taka við keflinu og Rækta Microfarm varð að veruleika.

  • Flest veitingahús bæjarins skipta við þau Giacomo og Serenu og nú þykir þeim tímabært að vekja athygli almennings á fyrirtæki sínu; á sunnudaginn verður opið hús hjá þeim í Kaldbaksgötu 2 á Oddeyri frá klukkan 14.00 til 16.00 og þangað eru allir velkomnir

Matt Wickstrom, „einn áhugaverðasti matreiðslumaður á Íslandi í dag,“ segir Serena, verður í Rækta á sunnudaginn og býður gestum upp á léttar veitingar sem hann útbýr úr sælkerasveppum og grænsprettum sem þau rækta.

Fólk er þegar farið að reka inn nefið í nokkrum mæli til að kaupa það sem ræktað er á staðnum. „Þeir sem hafa komið eru mjög ánægðir og segja öðrum frá; þannig hefur fólk frétt af okkur hægt og rólega en það tekur tíma,“ segir Serena og nú finnst þeim Giacomo tímabært að kynna fyrirtækið almennilega.

Allt sem vistvænast

Serena og Giacomo tóku þátt í markaði sem haldinn var í Deiglunni í desember. „Það var mjög gaman að geta gefið fólki að smakka,“ segir Serena og bætir við að viðtökur hafi verið mjög góðar. Þess vegna hlakka þau mikið til sunnudagsins og vona að sem flestir líti við.

Þau leggja mikla áhersla á að allt sé sem vistvænast. „Við kaupum fræ frá áreiðanlegum birgjum, eins mikið lífrænt og hægt er og notum engin eiturefni,“ segir hún. „Við viljum heldur ekki einnota ílát og ekki pakka inn í plast sem mér finnst allt of algengt. Allt sem við förum með á veitingastaði er í bökkum sem við tökum aftur í næstu ferð og fólk sem hingað kemur er duglegt að koma með poka eða bakka með sér. Það finnst mér mjög ánægjulegt.“

Rækta á Instagram 

Rækta á Facebook