Soroptimistar veittu 1,5 milljónir í styrki
Soroptimistaklúbbur Akureyrar veitti á nýliðnu ári styrki að andvirði 1,5 milljóna króna til fjölbreyttra verkefna. „Markmið styrkjanna er að bæta stöðu og líðan kvenna í okkar nær samfélagi, auk þess að styðja við menntun og félagslega þjónustu,“ segir í tilkynningu frá klúbbnum.
Starf Soroptimistaklúbbs Akureyrar endurspeglar markmið alþjóðlegu Soroptimista samtakanna. „Hreyfing kvenna sem vinnur að því að efla jafnrétti og mannréttindi kvenna með fræðslu, valdeflingu og samfélagslegum verkefnum. Klúbburinn á Akureyri er einn af 20 Soroptimistaklúbbum sem starfræktir eru á Íslandi.“
Styrkir klúbbsins eru fjármagnaðir af félagskonum sjálfum, auk reglubundinna fjáröflunarverkefna. Stærstu fjáraflanir ársins voru fatamessa sem klúbburinn stóð fyrir á Akureyrarvöku, ásamt sölu á appelsínugulum túlípönum í tengslum við alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. „Með túlípanasölu vildi klúbburinn vekja athygli á kynbundnu ofbeldi, þá sérstaklega stafrænu ofbeldi sem verður sífellt stærra og alvarlegra vandamál,“ segir í tilkynningunni frá klúbbnum.

Á árinu 2025 veitti klúbburinn styrki til eftirfarandi verkefna:
- Ofbeldisvarnir: Bjarmahlíð & Aflið, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi, til að styðja við ráðgjöf og þjónustu.
- Menntun og nám: Stuðningur við tölvukaup fyrir menntaskólanemendur til að tryggja jafnan aðgang að námi og menntun.
- Forvarnarfræðsla: Styrkur til sameiginlegs verkefnis, Barnaheilla og Stígamóta „Sjúk ást“.
- Sálræn aðstoð: Píeta samtökin, sem sinna forvarnar- og stuðnings starfi fyrir fólk í sjálfsvígshættu og aðstandendur.
- Félagsleg aðstoð: Hjálp48, úrræði Sorgarmiðstöðvar sem hefur það markmið að grípa aðstandendur eftir skyndilegan ástvinamissi utan sjúkrastofnana.
- Jólaaðstoð: Sameiginlegt jólaverkefni Matargjafa og Norðurhjálpar, sem styðja heimili sem þurfa á aðstoð að halda yfir hátíðirnar.
„Það er okkur mikil ánægja að geta með þessum hætti stutt við þessi mikilvægu verkefni sem hafa öll það að markmiði að efla konur og fjölskyldur í okkar nærsamfélagi,“ segir Þóra Ýr Árnadóttir, formaður Soroptimistaklúbbs Akureyrar. „Framlögin endurspegla skuldbindingu okkar við valdeflingu og öryggi kvenna,“ segir hún og þakkar öllum sem stutt hafa við starfsemi klúbbsins á árinu.