Fara í efni
Fréttir

Sólskinsstundir vel yfir meðallagi og lítil úrkoma

Börn að leik á tjaldsvæðinu á Hömrum 30. júní. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Börn að leik á tjaldsvæðinu á Hömrum 30. júní. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Meðalhiti á Akureyri í júní var 9,9 stig, 0,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en -0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands um tíðarfar í júní.

Júní var fremur kaldur, skv. upplýsingum Veðurstofunnar. Mjög kalt var á landinu um miðjan mánuðinn – dagana 11. til 20; þá frysti og snjóaði víða í byggð. Í lok mánaðar var aftur á móti mjög hlýtt á Austur- og Norðausturlandi og fór hitinn þar víða vel yfir 20 stig nokkra daga í röð. Mánuðurinn var kaldastur suðvestanlands og á sunnanverðu hálendinu, á meðan hlýrra var norðan- og austanlands.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 26,6 stig á Egilsstaðaflugvelli 30. júní. Það var líka mjög hlýtt þann 29. og þá mældist hitinn hæstur á Hallormsstað, 26,4 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist 15. júní, 6,7 stig á Gagnheiði en mest frost í byggð mældist 5,0 stig í Reykjum í Fnjóskadal sama dag. Það er mesta frost sem mælst hefur í byggð svo seint í júní.

  • Úrkoma á Akureyri mældist 12,9 mm sem er um 60% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri 5 daga mánaðarins, einum fleiri en í meðalári.

Í Reykjavík mældist úrkoma 39,1 mm sem er 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

  • Sólsskinsstundir á Akureyri mældust 204,1, sem er 21 stund yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Í Reykjavík mældust sólskinsstundir 152,0 sem er 37,5 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

  • Meðalhiti sex fyrstu mánuði ársins á Akureyri var 2,8 stig. Það er 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 41. sæti á lista 141 ára.

Í Reykjavík var meðalhiti fyrstu sex mánuðina 3,7 stig sem er jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 39. sæti á lista 151 ára.

  • Á Akureyri er heildarúrkoma mánaðanna sex jöfn meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Það hefur verið þurrt í Reykjavík það sem af er ári, úrkoman hefur verið um 65% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Nánar hér á vef Veðurstofu Íslands.