Fara í efni
Fréttir

Söfnun fyrir nýjum troðara langt komin

Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga og „Gamli rauður“.
Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga og „Gamli rauður“.

Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, hefur varla haft undan síðustu daga við að þakka, á Facebook síðu félagsins, fyrir framlög í söfnun vegna kaupa á nýjum snjótroðara sem nýttur verður í Kjarnaskógi og nágrenni. Félagið tilkynnti snemma árs um söfnunina, enda er troðari félagsins, Gamli rauður, orðinn liðlega fertugur og á síðasta snúningi!

Áætlað er að nýr snjótroðari kosti 35 milljónir króna og Ingólfur tilkynnti í dag: MARKMIÐIÐ INNAN SEILINGAR, um leið og hann þakkaði Samherja fyrir þriggja milljóna króna framlag.

Söfnunin tók kipp í gær

Sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar hafa lagt fram fé á árinu. Síðdegis í gær tilkynnti Finnur Aðalbjörnsson, verktaki, á Facebook að hann hefði lagt fram fé í söfnunina og hvatti fleiri fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Í kjölfarið bættust við hvorki meira né minna en sex milljónir á tæpum sólarhring og í dag lauk söfnuninni því sem næst þegar tilkynnt var um framlag Samherja.

Söfnuninni lýkur þó ekki fyrr en „á þeirri samhverfu dagsetningu 22022022. Peningar sem safnast umfram markmiðið verða nýttir til að reisa skýli yfir snjótroðarann, koma upp nauðsynlegum varahlutalager og öðrum búnaði. Allt mun þetta nýtast öllu útivistarfólki í Kjarnaskógi og nágrenni hans,“ segir á Facebook Skógræktarfélagsins.

„Frábærar fréttir“ 

Á vef Samherja var tilkynnt í dag að Samherjasjóðurinn leggi til „3.000.000 krónur í söfnunina en auk þess mun sjóðurinn styrkja daglegan rekstur troðarans með 1.000.000 króna fjárframlagi. Nýi troðarinn kostar um 35 milljónir króna og gerir aðkoma Samherjasjóðsins það að verkum að söfnunin telst vera langt komin.“

Framkvæmdastjóri Skógtæktarfélags Eyfirðinga segir von á nýja snjótroðaranum fljótlega á nýju ári. „Þetta eru frábærar fréttir,“ segir Ingólfur Jóhannsson í tilkynningu á heimasíðu Samherja, þar sem greint er frá styrknum. „Núna getum við sagt að þetta stóra verkefni sé svo að segja í höfn, næsta verk er væntanlega að staðfesta formlega pöntunina á troðaranum og ganga frá ýmsum lausum endum. Söfnunin hefur gengið mjög vel, sérstaklega undanfarna daga.“

Kjarnaskógur er paradís

„Samherji hefur frá upphafi veitt styrki til ýmissa samfélagsverkefna og þannig lagt sitt af mörkum til að stuðla að framförum í samfélaginu og velferð komandi kynslóða. Rík áhersla hefur verið á sviði íþrótta- og æskulýðsstarfs en þó einnig á stuðning við önnur almenn verkefni, oftast heilsutengd. Kjarnaskógur er útivistarparadís okkar Eyfirðinga og Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur unnið þrekvirki með því að gera skóginn aðgengilegan almenningi allan ársins hring. Snjótroðarinn er einmitt stór liður í því að gera þessa paradís enn aðgengilegi yfir vetrartímann og þess vegna er svo ánægjulegt að taka þátt í þessu verkefni,“ segir Dagný Linda Kristjánsdóttir, stjórnarkona í Samherja, á vef fyrirtækisins.