Fara í efni
Fréttir

Söfnuðu fyrir milljóna aðgerð á sólarhring!

Málfríður Stefanía Þórðardóttir ljósmóðir. Myndina birti Heiða dóttir hennar á Facebook í fyrrakvöld og gaf góðfúslegt leyfi fyrir að notuð yrði með fréttinni.

„Þetta er ótrúlegt! Það er svo margt gott fólk þarna úti sem ég vil skila þakklæti til,“ segir Heiða Hansdóttir við Akureyri.net. Móðir hennar, Málfríður Stefanía Þórðardóttir, ljósmóðir, hefur verið öryrki eftir að hún fór í minniháttar aðgerð í ársbyrjun 2018, íslenskir læknar hafa ekki getað komið henni til hjálpar en eftir mikla leit komst hún í samband við lækni í Sviss sem Heiða segir að hafi getað greint skaðann og telji sig geta lagað hann. Aðgerðin kostar 6,3 milljónir, Málfríður kemst að eftir þrjár vikur og aðeins sólarhring eftir að Heiða biðlaði til fólks á Facebook um að styrkja móður sína, hafði safnast nægilegt fé, til viðbótar við það sem hún gat lagt fram sjálf, til þess að Málfríður gæti greitt fyrir aðgerðina!

Alvarlegur taugaskaði

„Mamma mín er ein reyndasta og öflugasta ljósmóðir landsins en eftir að hafa farið í minniháttar aðgerð í byrjun 2018 er hún öryrki og vinnur því miður ekkert í dag. Í aðgerðinni hlaut hún alvarlegan taugaskaða og skaða á hringvöðva með þeim afleiðingum að hún þurfti stóma. Taugaverkirnir eru enn til staðar og hafa stjórnað hennar lífi síðustu þrjú og hálft ár. Mamma hefur gengist undir 3 aðgerðir í kjölfar fyrstu aðgerðar og gengið á milli lækna síðustu ár til að létta á verkjunum með lyfja- eða rafmeðferðum. Þessar verkjameðferðir hafa virkað misvel og lina verkina aðeins í örfáa daga,“ skrifaði Heiða á Facebook í fyrrakvöld.

Baráttuþrekið búið

„Við erum nú þegar löngu búin að senda inn umsókn á Sjúkratryggingar Íslands en þar er allt stopp í kerfinu og lítil svör að fá. Staðan er sú að mamma er búin með sitt baráttuþrek og getur ekki beðið lengur. Hún ætlar að fara í þessa aðgerð hvernig sem hún fer að því. Enginn getur þolað svona sára verki árum saman.“

Heiða segir að nefnd sem sér um þessi mál hjá SÍ fundi einu sinni í mánuði og næsti fundur verði ekki fyrr en eftir að móðir hennar kemst að hjá lækninum í Sviss. Sú meðferð sé ekki í boði á Íslandi svo talið hafi verið einsýnt að SÍ kæmi að málinu en stofnunin hafi hvatt Málfríði til þess að fá aðgerðinni frestað. Ákveði hún að fara í aðgerðina áður en málið verði formlega tekið fyrir hjá Sjúkratryggingum muni stofnunin ekki taka þátt í kostnaði.

Heiða ítrekar að móðir hennar geti ekki beðið lengur. „Hún gerir allt fyrir vonina að lifa eðlilegu lífi aftur. Hún þráir mest af öllu að fá bata og geta starfað við það sem hún elskar og hætta á örorku. Sá möguleiki er fyrir hendi ef hún kemst í þessa aðgerð,“ skrifaði Heiða í fyrrakvöld. „Ég hef því stofnað söfnunarreikning á hennar nafni. Mér þætti óendanlega vænt um ef þú gætir séð þér fært að hjálpa mömmu og styrkja hana, þó ekki væri nema 1000 kr. Margt smátt gerir eitt stórt.“

Óhætt er að segja að viðbrögðin hafi verið frábær og Heiða var nánast orðlaus af gleði þegar blaðamaður ræddi við hana. Málfríður starfaði lengi sem ljósmóðir á Sjúkrahúsinu á Akureyri og sem dæmi um hve mörgum þykir vænt um hana veit Akureyri.net til þess að töluvert var um að foreldrar legðu inn ákveðna upphæð fyrir hvert barn þeirra sem hún hefur tekið á móti.

Málfríður sjálf var hrærð yfir undirtektunum og birti færsluna hér að neðan á Facebook í gærkvöldi.