Fara í efni
Fréttir

Söfnin okkar VII – Ást í skókassa frá Iðunni

Sýningarbás skóverksmiðjunnar Iðunnar á Iðnaðarsafninu.

SÖFNIN OKKAR – VIIFrá Iðnaðarsafninu á Akureyri_ _ _

Ung Akureyrarmær, Bergþóra Kristinsdóttir, hóf störf á skóverksmiðjunni Iðunni 15. júní 1946 aðeins tveimur dögum áður en hún varð 16 ára. Hún var fædd 17. júní 1931 á Akureyri. Eitt sinn kom smá galsi í stúlkurnar á Iðunni sem voru að ganga frá skóm í skókassana og þær settu nöfn sín og heimilisföng í nokkra kassa. Þeir fóru svo sína leið inn á lager verksmiðjunnar.

Líða nú tvö ár. Þá dúkkar upp þessi skókassi í Kaupfélagi Flateyjar á Breiðafirði. Ungur maður, Benjamín Þórðarson sem fæddur var í Hergilsey á Breiðafirði 28. apríl 1927, keypti skóna skömmu áður en hann innritaði sig í fiskimannadeild Stýrimannaskólans í Reykjavík 1951 það sem hann útskrifaðist vorið 1953 með „hið meira fiskimannapróf“.

Benjamín finnur miðann með nafni Bergþóru Kristinsdóttur í skókassanum og eftir nokkrar vangaveltur ákveður hann að hafa samband við þessa stúlku.

Ná þau svo saman og upp frá því eru þau í bréfasambandi. Svo fer að snemma árs 1953 þegar Benjamín er nemandi við Stýrimannaskólann í Reykjavík fær hann bréf frá Bergþóru sem bíður honum að koma til Akureyrar að heimsækja sig.

Þegar Benjamín fær boðið var hann búinn að ákveða að fara heim til foreldra minna er bjuggu þá í Flatey á Breiðafirði, þar átti hann nýjan 18 feta bát og vél er hann hugðist setja í bátinn, svo að hann sá sér ekki fært að þiggja boðið, sem hann þó hafði þráð. Hann fékk á ný heimboð í páskafríinu sem hann og þáði með mikilli eftirvæntingu.

Bergþóra Kristinsdóttir og Benjamín Þórðarson. Þessar myndir birtust með minningargreinum í Morgunblaðinu.

Páskafríið hófst á þriðjudagskvöldi, en þá var komin norðan stórhríð er slotaði á föstudaginn langa. Á laugardeginum fékk hann síðan far með sjóflugvél til Akureyrar. Benjamín spurði til vegar að Norðurgötu 11, knúði hann þar dyra og þekkti Bergþóru strax af myndinni er hún hafði sent honum.

Er ég sá hana varð ég hugfanginn, fegurðin og glæsileikinn langt umfram alla drauma,“ sagði Bemjamín síðar.

Eftir skólavistina fór ég á ný í heimsókn norður til Bergþóru, var ég að hugsa um að fá pláss á síldveiðibáti fyrir norðan, þá var verið að útbúa báta til síldveiða.“

Fór móðir Bergþóru, Björg Ósland til Valtýs Þorsteinssonar sem gerði út þrjá báta á síld. Stýrimann vantaði á Garðar EA 761 og úr varð að Benjamín fékk plássið. Garðar var hlutahæsta skip síldveiðiflotans þetta sumar.

Bergþóra og Benjamín gengu í hjónaband 29. ágúst 1953. Þau ættleiddu eina dóttur, Björgu að nafni.

Skömmu síðar fluttu þau til Stykkishólms. Árið 1959 fluttu þau til Reykjavíkur og ári síðar til Hafnafjarðar. 1973 fluttu þau til Ólafsfjarðar og til Akureyrar 1981. Til Stykkishólms fluttu þau á ný eftir ársdvöl á Akureyri.

Frá 1972 störfuðu Benjamín og Bergþóra við trúboð á vegum Fíladelfíusafnaðarins.

Bergþóra lést á St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi 30. júní 2006.

Benjamín lést á Landspítalanum 21. apríl 2013.

Þegar þau voru að draga sig saman orti Pétur Björgvin Jónsson skósmiður og starfsmaður Iðunnar þessa vísu handa þeim:

Vina komdu vina, sem varir mínar þrá.
Við tvö ein skulum vaka út við sundin blá.
Þar rætast okkar draumar elsku dísin mín.
Hve dásamleg er hvíta, litla höndin þín.
Vorþrá vaknar þá hjörtu okkar slá.
Og kinn við kinn ég kossa þína finn.
_ _ _

Eftirmáli

Greinin er skráð með vitund Bjargar dóttur Bergþóru og Benjamíns samkvæmt símtali 12. mars. 2023, minningargreinum í Morgunblaðinu 8. júlí 2006 og 4. maí 2013 og starfsmannaskrá Sambandsverksmiðjanna á Gleráreyrum.