Fara í efni
Fréttir

Söfnin okkar: Sæt ertu, tunga, í svanna munni

Frá og með deginum í dag mun Akureyri.net vikulega opna dyr safnanna í bænum, ef svo má segja, með því að birta mynd af listaverki, einhvers konar grip eða skjali, með upplýsingum um viðkomandi hlut. Þetta er gert í samstarfi við Listasafnið, Minjasafnið, Héraðsskjalasafnið og Iðnaðarsafnið. Héraðsskjalasafnið ríður á vaðið, á degi íslenskrar tungu._ _ _

SÖFNIN OKKAR – IFrá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _  

Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur síðan 1996. Af því tilefni birtum við handrit með ljóðinu „Tungan mín“ og er fyrsta erindið eftirfarandi:

Sæt ertu, tunga, í svanna munni
sungin við Íslands jökulströnd,
numin af sjálfum Braga brunni
borin þú varst um norðurlönd.
Konungum þjóða háum hjá
hljómaði skáldamálið þá.

Ljóðið orti Benedikt Gröndal (1826-1907) en það var Sigurbjörg Benediktsdóttir (1901-2002) sem skrifaði. Skjalið kemur frá móður Sigurbjargar, Sesselju Jónatansdóttur (1867-1950) húsfreyju á Breiðabóli á Svalbarðsströnd. Á Héraðsskjalasafninu á Akureyri er ýmislegt fleira varðveitt frá Sesselju og má lesa yfirlit yfir það hér.

https://www.herak.is/static/extras/files/g-286480.pdf