Fara í efni
Fréttir

Snyrtið gróður sem vex út fyrir lóðarmörk

Einn þúsunda túrista sem myndað hefur rauða, akureyrska hjartað í sumar athafnar sig í vikunni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Trjágróður sem vex út fyrir lóðarmörk getur skapað óþægindi og jafnvel hættu fyrir gangandi og akandi vegfarendur. Á vef Akureyrarbæjar er minnt á að garðeigendur beri ábygð á sínum gróðri.

Garðeigendur eru hvattir til að klippa tré sín svo þau hvorki trufli vegfarendur, hylji umferðarskilti né dragi úr götulýsingu. Síðan segir: 

Snyrtingu gróðurs skal vera lokið fyrir 28. ágúst næstkomandi, en að þeim tíma liðnum verður gróður fjarlægður á kostnað lóðarhafa.

„Gróður sem vex út fyrir lóðarmörk getur þrengt að umferð og nauðsynlegri þjónustu á göngustígum, gangstéttum og götum, og dregið úr öryggi vegfarenda. Þá þarf að snyrta gróðurinn þannig að allir komist ferða sinna án hindrana. Einnig þurfa umferðarmerki að sjást vel og gróður má ekki byrgja götu- og stígalýsingu,“ segir á vef bæjarins.

Garðeigendur eru minntir á að samkvæmt byggingareglugerð þurfa þeir að halda gróðri innan lóðarmarka. Þar segir: „Lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa eða runna á lóðinni innan lóðarmarka. Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götu, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.“ Sjá nánar: Byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Hægt er að senda ábendingar um trjágróður sem er til „vandræða“ á ábendingarvef Akureyrarbæjar á heimasíðu sveitarfélagsins.

„Sýnum tillitssemi og klippum trjágróður frá stéttum og stígum,“ segir á vef bæjarins.

Mynd af vef Akureyrarbæjar: María Helena Tryggvadóttir