Fara í efni
Fréttir

Snjór mokaður af stígum og íbúðagötum

Leiðindafæri; dæmigerð mynd frá Akureyri í dag. Mynd af heimasíðu Akureyrar.
Leiðindafæri; dæmigerð mynd frá Akureyri í dag. Mynd af heimasíðu Akureyrar.

Aðstæður til snjómoksturs hafa verið krefjandi á Akureyri í vikunni. Býsna mikið hefur snjóað á sama tíma og hitastig hefur rokkað upp og niður, hlýnað yfir daginn og myndast slabb á götum og stígum.

„Ekki er gott að láta snjómoksturstæki vinna á frost- og klakalausu malbiki því hætt er við skemmdum, t.d. á vélum og kantsteinum. Þar af leiðandi hefur þótt nauðsynlegt að takmarka moksturinn að mestu við stofnbrautir, stofnstíga og tengibrautir,“ segir á heimasíðu Akureyrarbæjar í dag.

„Í dag er ástand í íbúðagötum hins vegar víða orðið erfitt og þar sem von er á frosti næstu daga er settur aukinn kraftur í snjómoksturinn. Markmiðið er að hreinsa sem allra mest af illfærum íbúðagötum og stígakerfinu áður en frystir aftur til að koma í veg fyrir að slabbið verði að klaka og ís.

Íbúar eru beðnir um að sýna þessu ástandi þolinmæði. Engum finnst gaman að sitja fastur í illfærri götu eða vaða slabb upp að hnjám, en allir eru að gera sitt besta og munum að vorið er á næsta leyti.“