Fara í efni
Fréttir

Snjókoma, hvasst og lélegt skyggni í dag

Snjó hefur kyngt niður á Akureyri og nágrenni síðustu sólarhringa. Í dag er spáð norðaustan 13 til 18 metra vindhraða á sekúndu, snjókomu í dag en að það dragi úr ofankomunni í kvöld. Gul veðurviðvörum er í gildi til miðnættis.

Frost verður 0 til 6 stig í dag. Á morgun er spáð 8 til 15 metrum á sekúndu og éljum og gert er ráð fyrir því að annað kvöld bæti í snjókomuna.

Búast má við talsverðri snjókomu með skafrenningi, lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum í dag, jafnvel ófærð. Því er hyggilegt að kanna aðstæður á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er í ferðalag, segir á vef Veðurstofunnar.

Lögreglan segir á Facebook síðu sinni kl. 11.30:

Ófært er á milli Hjalteyrar og Ólafsfjarðar vegna erfiðra akstursskilyrða og versnandi veðurs. Bifreiðar eru fastar í blindbyl á umræddum vegkafla. Fólk er beðið um að vera ekki á ferðinni þarna.
 
Vegurinn um Dalsmynni eru kominn á óvissustig vegna snjóflóðahættu og þar er þungfært.
 
Komið er óvissustig á Öxnadalsheiði en hún er farin að þyngjast og gæti lokast með stuttum fyrirvara. Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru víða á láglendi.
 
Þæfingur er á Tröllaskaga og slæmt skyggni sem og óvissustig vegna snjóflóða er þar í gildi.
 

Veðurstofan

Vegagerðin