Snjóföl í dag – spáð er kólnandi veðri

Veturinn er rétt handan við hornið, fyrsti vetrardagur á laugardag og veðurbreytingar minna á hvað tímanum líður. Snjókoma og slydda hefur verið á Akureyri í nótt og í morgun og hvít jörð. Von er á kólnandi veðri næstu daga.
Samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands fyrir Norðurland eystra frá því í gærkvöld má búast við norðlægri átt í dag, 3-10 metrum á sekúndu, éljum eða dálítilli snjókomu og kólnandi veðri.
Kólnandi veður og norðanátt
Á miðvikudag er gert ráð fyrir norðanátt, 10-18 m/sek., hvassast austantil. Él eða slydduél verða norðan- og austanlands, hiti nálægt frostmarki. Hægari vindur og styttir upp á fimmtudag og frost 0-5 stig yfir daginn. Á föstudag verður breytileg átt og skýjað að mestu, frost 0-5 stig. Dálítil snjókoma á laugardag, fyrsta vetrardag og frost áfram 0-5 stig.
Á veðurvef Einars Sveinbjörnssonar, blika.is, má sjá spá fyrir næstu daga á myndrænan hátt.
Sjálfvirk spá fyrir Norðurland eystra í dag og næstu daga, eins og hún birtist á vef Veðurstofu Íslands. Hér að neðan eru skjáskot af vedur.is kl. 12 á hádegi í dag og næstu daga.