Fara í efni
Fréttir

Snjóföl á Akureyri í morgunsárið

Þegar Akureyringar fóru á fætur í morgun lá örþunnt, hvítt lag yfir bænum. Varla er hægt að tala um að snjói en óumdeilt er þó að hér er á ferðinni fyrsta sýnishorn haustsins. Ekki vakti það kátínu allra - NEI TAKK OF SNEMMT skrifaði Harpa Hjarðar til að mynda á þennan bíl sem stóð fyrir utan starfsstöð RÚV í miðbænum í morgun. Hún segir þetta skilaboð til veðurguðanna; skýr skilaboð!

Á dögunum gránaði örlítið í fjöll en Akureyri.net hafði varla birt frétt um það þegar grái liturinn var á bak og burt. Svo verður að líkindum einnig nú því hlýtt verður fram eftir degi, 10 gráðum er spáð síðdegis og mjög hvössu. Úrkomu er ekki spáð á morgun en á fimmtudag er gert ráð fyrir mikilli rigningu í bænum frá miðjum degi og fram á kvöld.

Hæglætisveður verður á föstudag en ballið byrjar sennilega fyrir alvöru á laugardaginn, þegar Íslendingar kjósa til Alþingis, og lokaumferð Íslandsmótsins í knattspyrnu fer fram. Þá verður mikil rigning fyrri hluta dags og síðan slydda eða jafnvel snjókoma fram á kvöld, en þó ekki mikill vindur eins og spáð er víða annars staðar.