Fara í efni
Fréttir

Opið hús víða – síðasti dagur Smámunasafnsins?

Á Smámunasafninu í Sólgarði. Jólatré hjónanna Sverris Hermannssonar, sem safnið er kennt við, og Auðar Halldóru, hefur verið skreytt og Sigríður Rósa safnstýra hefur lagt á borð í þeirra anda. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Í dag er Opinn dagur í Eyjafjarðarsveit þegar ýmsir aðilar í sveitarfélaginu taka saman höndum og opna dyr upp á gátt, eins og það er orðað í kynningu. „Við leggjum mikinn metnað í það sem við bjóðum upp á og fjölbreytnin er gríðarleg,“ segir þar. 

Nefna má að Kvenfélagið Iðunn fagnar 90 ára afmæli í Laugarborg og rétt að vekja athygli á því að safnstýra Smámunasafnsins í Sólgarði segir að í dag verði dyr safnsins opnaðar fyrir gestum og gangandi í síðasta sinn í núverandi mynd.

Ekki er gert ráð fyrir rekstri safnsins í fjárlögum Eyjafjarðarsveitar á næsta ári, en eins og áður hefur komið fram er Sólgarður, gamla félagsheimilið sem hýsir safnið, til sölu. Safnstýran, Sigríður Rósa Sigurðardóttir, sagðist þó í samtali við Akureyri.net ekki hafa vitneskju um að taka ætti niður sýninguna þó rekstri safnsins yrði hætt í núverandi mynd.

Jólastemning og ratleikur fyrir börnin

Á Smámunasafninu mun ríkja jólastemning í dag; jólatré þeirra hjóna Sverris Hermannssonar og Auðar Halldóru Jónsdóttur hefur verið skreytt og lagt á borð í þeirra anda. Ratleikur og glaðningur fyrir börnin og hægt að kaupa sér kaffi, kakó og vöfflur. Einnig verður Saurbæjarkirkja opin þennan dag en hún er stærst þeirra torfkirkja sem varðveist hafa á landinu og stendur fyrir ofan Sólgarð.

Safnið og kirkjan verða opin í dag frá 13-17, enginn aðgangseyrir og öll velkomin!

Smellið hér til að sjá frekari upplýsingar um það sem verður í boði í Eyjafjarðarsveit í dag.