Fara í efni
Fréttir

„Slava Ukraini! Dýrð sé Úkraínu!“ – MYNDIR

Á samstöðufundinum á Ráðhústorgi í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Ég er nánast orðlaus. Mætingin fór fram úr mínum björtustu vonum,“ sagði Andrii Gladii, Úkraínumaðurinn sem boðaði til samstöðufundar á Ráðhústorgi á Akureyri í dag vegna innrásar Rússa í heimaland hans.

Á þriðja hundrað manns komu saman á torginu. Andrii, sem er alþjóða stjórnmálafræðingur og starfsmaður Norðurslóðanetsins sem er til húsa í rannsóknarhúsinu Borgum á Akureyri, ávarpaði samkomuna. Nokkrir að auki tóku til máls og þjóðsöngur Úkraínu var sunginn.

Andlegur stuðningur

„Ég er mjög hamingjusamur að sjá hve margir eru mættir. Ég finn fyrir miklum andlegum stuðningi og ég finn kraft hér á staðnum, sem ég mun reyna að koma til skila til heimalandsins,“ sagði Andrii við Akureyri.net á Ráðhústorgi.

„Því er stundum haldið fram að orð og stuðningur sem þessi skipti ekki máli en það er mikill misskilningur; samstaða sem þessi er mjög mikilvæg. Takk Íslendingar; takk Akureyri; takk Ísland!“ sagði Andrii og var mjög hrærður.

Slökkt á símum vegna eldflauga

Andrii er frá borginni Zaporizhzhia í austurhluta Úkraínu. Hann flutti til Akureyrar fyrir þremur árum en foreldrar hans eru búsettir í borginni.

„Foreldrar mínir lögðu af stað í ferð með lest fyrir tveimur dögum, ég held þau ætli að reyna að komast til borgarinnar Lviv í vesturhluta Úkraínu en ég veit ekki hvar þau eru. Fólk slekkur á símum sem í er staðsetningarbúnaður; mögulegt er að láta eldflaugar miða út hvar símarnir eru og senda sprengjur þangað. Það er skelfilegt, skelfilegt!“

„Hernaðaraðgerðir!“

Andrii telur mögulegt að binda enda á stríðið en þá verða ríkisstjórnir allra landa að að grípa til mjög afgerandi aðgerða. Að því búnu sé hægt að hefja viðræður við Rússa. Ekkert þýði að hefja viðræður fyrr og sjá til.

Hann sagði í ávarpi sínu nauðsynlegt að reka sendiherra Rússlands hvarvetna úr landi. „Það verður að gerast. Sendiherrar Rússlands munu alls staðar reyna að ljúga að stjórnvöldum og eitra þannig umræðuna. Ég horfði á viðtal við rússneska sendiherrann á Íslandi á RÚV á öðrum degi innrásarinnar og það var hræðilegt; hann sagði að í raun hefði ekkert gerst. Þetta væru hernaðaraðgerðir! Þetta eru ekki hernaðaraðgerðir, þetta er árás! Þetta er hernám!“ sagði Andrii og var mikið niðri fyrir.

„Rússar lýsa ekki bara yfir stríði á hendur Úkraínu með þessari innrás heldur á hendur NATO [Atlantshafsbandalaginu]. Rússar vilja sundra NATO, þeir vilja eyðileggja Evrópusambandið, þeir vilja leggja undir sig Evrópu, þeir vilja draga sem mest úr mætti Bandaríkjanna ... Ég get talað lengi um þetta, alþjóða stjórnmálafræðin er mitt fag,“ sagði Andrii Gladii.

Andrii Gladii, skipuleggjandi samstöðufundarins á Ráðhústorgi, ávarpar viðstadda í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.