Skotvopnum stolið úr læstum byssuskáp
Síðastliðið mánudagskvöld var tilkynnt um innbrot á Akureyri, þar sem skotvopnaskápur í læstri geymslu hafði verið brotinn upp og úr honum stolið sex skotvopnum. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Strax sama kvöld og aðfaranótt þriðjudags leiddi rannsókn lögreglunnar til handtöku þriggja einstaklinga og eitt skotvopnanna fannst við húsleit. Sólarhring síðar fundust hin skotvopnin fimm. Hinum handteknu hefur verið sleppt en málið er enn til rannsóknar.
Í frétt lögreglunnar kemur fram lögum og reglum hafi verið fylgt við vörslu skotvopnanna en lögregla bendir á að hætta geti stafað af skotvopnum í höndum rangra aðila, auk þess sem skotvopn séu einnig álitleg vara í ólöglegum viðskiptum. Því beinir lögreglan þeim tilmælum til skotvopnaeigenda að tryggja vörslu þeirra og vera vakandi fyrir hvers kyns öryggisbrestum.