Fara í efni
Fréttir

Skömm helsta hindrun við að leita sér hjálpar

Ljósmynd: Axel Darri Þórhallsson

Karen Birna Þorvaldsdóttir er nýútskrifaður doktor í heilbrigðisvísindum frá Háskólanum á Akureyri; aðeins 29 ára gömul. Hún er jafnframt fyrsti doktorsneminn sem útskrifast frá HA. Vegna þessa var óvenju fjölmennt á viðburðinum 11. október síðastliðinn og pressan að standa sig vel því jafnvel enn meiri en gerist og gengur á doktorsvörnum. Það var því stór dagur í sögu háskólans, Akureyrar og ekki síst doktorsnemans sem steig á svið með verndargripinn sinn í lófanum. Það þarf varla að taka fram að Karen Birna stóð sig frábærlega við að verja doktorsritgerð sína sem ber heitið „Að skilja og mæla hindranir þess að leita sér hjálpar eftir áfall: Þróun á mælitæki með blönduðum aðferðum.“

„Aðeins extra lag af pressu“

Það var flaggað þennan dag við Norðurslóð og háskólinn í sínu fínasta pússi. Það fór ekki fram hjá Karen Birnu. „Maður sá hvað þetta var flott, myndir á skjáum út um allt, búið að dekka upp borðin og svo margir sem mættu líka! Mér leið vel en fann samt að ég varð aðeins stressaðri en ég hélt. Ég vissi að ég yrði stressuð, ég held að flestir séu það, maður vill auðvitað gera þetta svo ofboðslega vel.“ Hún bætir við: „Það er alltaf pressa, hjá öllum auðvitað, en jú ætli það hafi ekki verið aðeins extra lag af pressu – af því þetta var fyrsta doktorsvörnin við Háskólann á Akureyri.“

Ólafsfirðingur og Akureyringur

Doktor Karen Birna Þorvaldsdóttir er fædd árið 1993. Hún er Ólafsfirðingur í aðra ættina og Akureyringur í hina. Hún bjó fyrstu æviár sín á Ólafsfirði en flutti með fjölskyldu sinni til Akureyrar átta ára gömul. Karen Birna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og lauk B.A. gráðu í sálfræði og M.S. gráðu í heilbrigðisvísindum með áherslu á sálræn áföll og ofbeldi frá Háskólanum á Akureyri.

Með leiðbeinendum sínum í doktorsnáminu. Frá vinstri: Sigrún Sigurðardóttir, Karen Birna, Sigríður Halldórsdóttir og Denise Saint Arnault. Rhonda Johnson sat einnig í doktorsnefndinni en fylgdist með vörninni frá Bandaríkjunum í streymi. Ljósmynd: Axel Darri Þórhallsson

Hún hóf doktorsnám í heilbrigðisvísindum við HA árið 2019 og lauk því á aðeins þremur árum! Hluta doktorsnámsins tók hún við University of Michigan í Bandaríkjunum og dvaldi þar við Michigan Mixed Methods rannsóknastofnunina. Doktorsverkefnið var styrkt af Jafnréttissjóði Íslands, Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri og Fulbright stofnuninni. Samhliða doktorsnáminu hefur Karen Birna kennt við HA, gegnt stöðu formanns Rannsóknamiðstöðvar gegn ofbeldi og setið í stjórn Bjarmahlíðar – miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis.

Sambýlismaður Karenar Birnu er Valþór Ingi Einarsson rafvirki og eru þau búsett á Akureyri. Foreldrar hennar eru Harpa Viðarsdóttir hjúkrunarfræðingur og Þorvaldur Jónsson heitinn, fyrrv. framkvæmdastjóri og eigandi sjónvarpsstöðvarinnar N4.

HA framarlega á sviði áfalla

„Ég er hér í HA í meistaranáminu þegar ég heyri að það eigi að fara að bjóða upp á doktorsnám og varð strax mjög spennt; af því ég vildi halda áfram að mennta mig á sviði heilbrigðisvísinda með áherslu á sálræn áföll og ofbeldi en Háskólinn á Akureyri er framarlega og með sérfræðiþekkingu á því sviði,“ segir Karen Birna. „Mínir leiðbeinendur við HA, Dr. Sigríður Halldórsdóttir prófessor og Dr. Sigrún Sigurðardóttir dósent, ásamt öðru flottu fræðafólki hér á landi, hafa þar unnið mikið og mikilvægt verk.“ Henni fannst þar að auki spennandi að vera í hópi fyrstu doktorsnemanna við skólann og fá þar með að taka þátt í að móta doktorsnámið. „Mér fannst rödd okkar nemanna fá mikið vægi.“ Karen Birna var þó alveg ákveðin að fara líka erlendis til að víkka sjóndeildarhringinn. „HA leggur áherslu á að doktorsnemar við skólann dvelji einnig við erlenda háskóla eða rannsóknarstofnanir sem mér fannst heillandi og mikilvægt.“ Í doktorsnefnd Karenar Birnu sátu ásamt Sigríði og Sigrúnu tveir bandarískir prófessorar, þær Dr. Denise Saint Arnault við University of Michigan og Dr. Rhonda M. Johnson við University of Alaska Anchorage.

Til Bandaríkjanna sem Fulbright styrkþegi

Karen Birna var lengi búin að stefna á að fara til Bandaríkjanna í nám en langafi hennar var fyrsti íslenski Fulbright styrkþeginn: „Og virkilega gaman að ég hafi síðan sjálf farið út til náms sem Fulbright styrkþegi rúmlega 60 árum seinna.“ Dvölin erlendis var lærdómsrík: „Bandaríska menntakerfið og menningin auðvitað talsvert ólíkt því sem maður er vanur hér heima,“ og Karen Birna segist hafa orðið fyrir meira menningarsjokki en hún bjóst við. Hún talar einnig um að hafa orðið fyrir miklum áhrifum úti: „University of Michigan er með mjög sterka deild í blandaðri aðferðafræði og þarna voru þvílíkir toppar af fræðimönnum; meðal helstu sérfræðinga í heiminum í blönduðum aðferðum.“ Karen Birna bætir við: „Ég var sem sagt að nota slíka aðferðafræði í doktorsverkefninu svo það var magnað að fá tækifæri til að vinna hluta af mínum rannsóknum við deildina og læra af þessum sérfræðingum.“

Mikilvægi þess að miðla niðurstöðum rannsókna

„Ég hef verið nokkuð í kringum fjölmiðlaumhverfi alveg frá því að ég var lítil – maður var mikið á N4 hjá pabba og á margar góðar minningar þaðan,“ segir Karen Birna spurð út í að koma fram í fjölmiðlum enda nýdoktorinn og rannsóknarverkefnið búið að fá mikla athygli. „Ég og systir mín að leika okkur á settinu á N4 og svo fylgjast með fréttamönnunum taka viðtöl við fólk alls staðar að af landinu; sem ég hafði strax þá sérstaklega gaman af og áhuga á.“ Vegna þessarar nándar við tökuvélar og hljóðnema finnst henni ekki erfitt að koma fram en segist hins vegar ekki hafa neina þörf fyrir að vera sjálf í sviðsljósinu: „Að miðla niðurstöðum rannsókna minna sem víðast tel ég þó afar mikilvægt.“

Ljósmynd: Axel Darri Þórhallsson

Skömm helsta hindrunin

„Í doktorsnáminu var ég sem sagt að rannsaka það að leita sér hjálpar eftir áföll með sérstaka áherslu á hvaða hindrunum þolendur á Íslandi mæta við að leita sér hjálpar; og þróaði ásamt mínum leiðbeinendum mælitæki sem metur slíkar hindranir,“ segir Karen Birna. Þátttakendur í rannsókninni voru alls 154 íslenskar konur sem höfðu verið beittar ofbeldi í nánu sambandi og tóku þær ýmist þátt í viðtölum eða með því að svara rafrænni könnun. „Ofbeldi í nánu sambandi er talið vera eitt af algengari áföllum sem fólk verður fyrir á heimsvísu, og þá sérstaklega meðal kvenna þó vissulega geti fólk af öllum kynjum orðið fyrir slíku ofbeldi. Það hefur víðtæk skaðleg og oft langvarandi áhrif á heilbrigði fólks en samt sem áður hafa fyrri rannsóknir sýnt að fáir þolendur leiti sér hjálpar.“ Karen Birna bætir við: „Ég kannaði því meðal annars hvaða úrræði konurnar sem tóku þátt hefðu nýtt sér eða viljað nýta á síðastliðnum 12 mánuðum. Í ljós kom að þrátt fyrir að um 70% þátttakenda hefðu talið sig þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda hafi nær helmingur þeirra ekki leitað sér hjálpar. Helsta hindrunin meðal þátttakenda var skömm – þar sem yfir 100 konur eða 77% af öllum þátttakendunum sögðust ekki hafa leitað sér hjálpar því þær skömmuðust sín.“ Aðrar hindranir sem höfðu mikil áhrif á þátttakendur þessarar rannsóknar voru að halda að þær ættu sjálfar að leysa úr sínum vandamálum, verið ráðvilltar og ekki vita hvert þær gætu leitað, halda að aðstæðurnar væru eðlilegar eða ekki nógu alvarlegar, vilja vernda sig frá því að endurupplifa áfallið, hræðast berskjöldun, fjárhagsáhyggjur þar sem þjónustan sem þær vildu sækja var ekki niðurgreidd og loks viðhorf tengd því að það sé veikleikamerki að leita sér hjálpar.

Nauðsynlegt að hjálpin sé þá í boði

Karen Birna segir það afskaplega mikilvægt að fólk geti leitað sér hjálpar eftir áföll, telji það sig það þurfa: „Nauðsynlegt sé að takmarka hindranir en þá þarf líka hjálpin eða þjónustan sem fólk vill sækja sér að standa þeim til boða; taki þau þessi oft erfiðu skref að leita sér hjálpar.“ Þörf er á frekari rannsóknum en mælitækið sem hún þróaði er einnig hægt að nýta í rannsóknum með fólki sem hefur upplifað annars konar áföll eða streituvaldandi atburði; til dæmis aðrar tegundir ofbeldis, náttúruhamfarir eða skyndileg og ótímabær dauðsföll. „Það þarf reyndar fyrst að kanna mælitækið betur meðal annarra og fjölbreyttari hópa en það verður næst á dagskrá þó fókusinn núna hafi verið á ofbeldi í nánu sambandi og aðeins meðal kvenna,“ segir nýdoktorinn að lokum sem hyggst halda áfram rannsóknum á þessu sviði: „Með það að markmiði að finna áhrifaríkar leiðir til að auðvelda fólki hér á landi að leita sér hjálpar eftir áföll.“

Að lokinni doktorsvörn fóru Karen Birna og Valþór Ingi í langþráð frí erlendis til að hvílast áður en tekist er á við ný verkefni, fleiri rannsóknir, framkvæmdir í húsinu sem þau eru nýflutt í og allt það sem lífið hefur upp á bjóða hverju sinni.

Akureyri.net óskar Karen Birnu innilega til hamingju með doktorsgráðuna og óskar henni velfarnaðar í leik og starfi.