Fara í efni
Fréttir

Skógræktarfélaginu stefnt fyrir dóm

Mynd af vef Skógræktarfélags Eyfirðinga

Eigendur jarðanna Veigastaða og Hallands hafa stefnt Skógræktarfélagi Eyfirðinga fyrir Héraðsdóm Norðurlands eystra. „Stefnan er tilkomin vegna tilrauna landeigenda til að hafa af félaginu umráðarétt yfir landi skógarins,“ segir á vef félagsins í dag.

  • ATHS - Í upphaflegu útgáfu fréttarinnar sagði að málið snérist um hugmyndir um hótel við Skógarböðin en svo er ekki. Það mál er í farvegi. Hér ræðir hins vegar um nyrðri hluta Vaðlaskógar. Beðist er velvirðingar á þeim misskilningi.

Vaðlaskógur liggur í landi fjögurra jarða í tveimur sveitarfélögum; Veigastöðum og Halllandi í Svalbarðsstrandarhreppi og Ytri- og Syðri Varðgjá í Eyjafjarðarsveit. Skógræktarfélagið á sem sagt skóginn en ekki landið.

Eigendur Veigastaða og Hallands hafa stefnt Skógræktarfélaginu til uppsagnar á samningi sem gerður var 1936, þar sem landeigendur afsöluðu sér umráðarétti yfir landinu sem skógurinn er í.

„Árið 1936 létu þáverandi landeigendur áðurnefndra jarða af hendi umráðarétt yfir landi Vaðlaskógar,“ segir í nýrri ályktun stjórnar Skógræktarfélagsins. „Félagið hóf strax ári síðar vinnu við að girða af reitinn og rækta skóg, og hefur æ síðan ræktað upp Vaðlaskóg, sinnt grisjun, lagt stíga, brúað læki og sinnt öðrum störfum sem ræktuninni fylgja. Vaðlaskógur er elsti ræktaði skógarreiturinn í umsjón félagsins en þar var ekki að finna eina einustu trjáplöntu þegar ræktun hófst.“

Í ályktun stjórnarinnar segir jafnframt: „Stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga mun þess vegna standa vörð um Vaðlaskóg sem er óviðjafnanleg náttúruperla í hjarta Eyjafjarðar.“