Fara í efni
Fréttir

Skoða ensímivirkni fiskislógs heima í stofu!

„Ég hef alltaf haft áhuga á að miðla vísindum á óhefðbundinn hátt og sá mér leik á borði þegar rannsóknarstofurnar skelltu í lás hér á Borgum í haust,“ segir Sean Michael Scully. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Þegar ákveðið var að aflýsa verklegum lotum í auðlindadeild Háskólans á Akureyri vegna Covid-19 tók Sean Michael Scully, aðjúnkt við deildina, málin í sínar hendur. Á óvenjulegum tímum getur þurft að brydda upp á óhefðbundnum kennsluaðferðum!

„Ég hef alltaf haft áhuga á að miðla vísindum á óhefðbundinn hátt og sá mér leik á borði þegar rannsóknarstofurnar skelltu í lás hér á Borgum í haust,“ segir Scully á heimasíðu skólans. Hann sendi fyrsta árs nemum á líftækninámskeiði lítil tilraunasett sem gerir þeim kleift að skoða ensímvirkni fiskislógs í stofunni heima hjá sér. Scully varð sér úti um frosin líffæri úr ýsu, þorski, steinbít, ufsa og karfa sem hann maukaði í litla skammta. Stúdentarnir fengu svo það verkefni að athuga hvaða ensímvirkni leysist í maga, brisi, þörmum og lifur þessara fiska. Þeir skoða niðurbrot á sterkju, mjólkurpróteinum og fitu svo eitthvað sé nefnt.

Þá eiga stúdentar á öðru ári í námskeiði í lífefnafræði einnig von á sendingu. „Stúdentar á öðru ári skoða ensímið sem Alexander Fleming uppgötvaði á sínum tíma – lýsósým. Það finnst meðal annars í munnvatni og tilheyrir vörnum líkamans. Stúdentar munu hins vegar fá það verkefni að einangra ensímið úr eggjahvítu,“ segir Sean.

Hann segist byrjaður að skipuleggja kennslu næsta misseris. „Það má segja að ég sé að taka mér forfeður og formæður örverufræðinnar til fyrirmyndar – það voru ekki allir sem höfðu aðgang að rannsóknarstofum í den,“ segir hann. Velja verði efni við hæfi því ekki gangi allt upp bæði í eldhúsinu og á rannsóknarstofu. „Ég hlakka til að heyra hvað stúdentum finnst um verkefni af þessu tagi – ég er að gera þetta í fyrsta skipti og það er örugglega eitthvað sem á eftir að þurfa að breyta eða bæta. Ég lít á þetta sem samvinnuverkefni milli mín og stúdentanna.“

Heimasíða Háskólans á Akureyri