Fara í efni
Fréttir

Skínandi ljós tendrað með handarútréttingu

Laxárstöð II. Mynd af vef Landsvirkjunar.

Í dag eru 70 ár síðan Laxárstöð II var tekin í notkun. Stöðin, sem skipti Akureyringa gríðarlega miklu máli á sínum tíma, var gangsett laugardaginn 10. október 1953 með mikilli viðhöfn.

Frásögn Morgunblaðsins þann dag var hástemmd, svo ekki sé meira sagt. Ljóðrænn textinn rennur eftir forsíðunni eins og Laxáin sjálf í fallegri náttúrunni.

Fréttin hefst svona: „Í dag verður brotið blað í raforkumálasögu þjóðarinnar. Hið nýja og glæsilega orkuver við Laxá í Þingeyjarsýslu verður tengt við rafmagnskerfi Akureyrar og nærliggjandi héraða, og straumnum hleypt á. Loks, eftir margra ára skort á þessum orkugjafa yls og ljósa, er nú hægt að fullnægja eftirspurninni.“

Forsíða Morgunblaðsins laugardaginn 10. október 1953. Í blaðhausnum er dagsetningin reyndar 10. apríl en það eru mistök.

Síðan segir: „Enn á ný hefur verið aukið við þennan dýrmætasta kraft, sem íslenzk náttúruauðlegð á til, í þágu þjóðarinnar. Beljandi krafti fallvatnsins hefur verið breytt í þúsundir hestafla, sem við getum hagnýtt okkur að eigin geðþótta. Hægt verður nú að uppfylla óskir margra, sem dreymt hefur um að tendra, með einni handarútréttingu, skínandi ljós í húmi skammdegiskvöldsins. Enn verður afl hinna ísköldu fossa látið ylja híbýli manna til sjávar og sveita, er kaldur vetrarnæðingurinn gnauðar við freðið hjarnið. Og enn mun þessi undrakraftur bræða stálið og brenna málmana í smiðjum handverksmannanna, og bylta vélum iðjuveranna.“

Akureyrarblaðið Dagur fjallaði að sjálfsögðu einnig myndarlega um virkjunina nýju í Laxá.

Rafmagnsskortur

„Í dag mun ein af gullmyllum íslenzku þjóðarinnar fara í gang,“ sagði Morgunblaðið og hélt áfram: 

„Nú eru liðin 23 ár síðan gamla rafstöðin í Glerárgljúfri tók til starfa. Hinn mikli og öri vöxtur Akureyrarbæjar varð þess valdandi, að brátt reyndist hún of lítil, og svo má raunar segja um alla raforkuaukningu, sem bærinn hefur fengið síðan. Að skömmum tíma liðnum hefur rafmagnsskorturinn sagt til sín. Samhliða fólksfjölgun í bænum hefur einnig orðið gífurleg aukning á notkun rafmagnstækja og alls rafbúnaðar. Tækni nútímans hefur krafizt aukningar raforkunnar langt umfram fólksfjölgun. Árið 1939 tók fyrsta virkjunin við Laxá til starfa og 1944 fyrsta viðbótarvirkjunin. Sendi Laxárvirkjunin við Brúar þá frá sér samtals 6.400 hestöfl. Á næstu árum voru framkvæmdar ýmsar athuganir á aukinni virkjun þar austur frá, er leiddu til þeirrar niðurstöðu, að framkvæmd var virkjun sú, er nú er lokið.“

  • Laxárstöð II er næstelsta stöðin í Laxá og nýtir neðri hluta fallsins við Brúar, neðst í Laxárdal, segir á vef Landsvirkjunar. „Uppsett afl stöðvarinnar er 9 megavött og raforkuframleiðslan er 78 gígavattstundir á ári. Stöðin er rennslisvirkjun eins og hinar stöðvarnar í Laxá, en það þýðir að þær nýta eðlilegt rennsli árinnar. Áin er stífluð um 300 metrum neðan við stöðvarhús Laxár I og vatnið leitt þaðan að stöðvarhúsi, samtals um 380 metra leið. Í stöðinni er ein vélasamstæða sem tekin var í gagnið árið 1953.“
  • Laxárvirkjun, sem var í helmingaeigu ríkisins og Akureyrarbæjar, reisti Laxárstöðvarnar. Félagið rann inn í Landsvirkjun árið 1983 og hefur Landsvirkjun rekið stöðvarnar síðan.