Skilyrði að enginn kostnaður falli á bæinn
Bæjarstjórn Akureyrar setur það sem skilyrði fyrir samkomulagi við Landsnet um lagningu Blöndulínu 3 að bæjarfélagið taki ekki þátt í kostnaði þegar háspennustrengurinn verður lagður í jörðu.
Samþykkt var samhljóða á aukafundi bæjarstjórnar á mánudag að auglýsa breytingu á aðalskipulagi vegna Blöndulínu; breytingin er nauðsynleg vegna þess að strengurinn verður á möstrum fyrstu árin. Krafa bæjarins hefur verið sú að strengurinn verði lagður í jörðu en niðurstaðan eftir langar og strangar viðræður er sú að það sé ekki tæknilega mögulegt strax. Of mikil spenna er sögð í kerfinu til þess að svigrúm sé fyrir jarðstreng, það verði hins vegar mögulegt þegar búið verður að tengja Blöndulínu suður í Hvalfjörð og Landsnet hefur boðist til að koma strengnum í jörðu á sinn kostnað að 15 árum liðnum.
Í umræðum um málið á fundi bæjarstjórnar var ítrekað nefnt að verið væri að samþykkja að auglýsa breytingu á aðalskipulagi – ekkert annað. Nú færi af stað samráðsferli við íbúa og þeir bæjarfulltrúar sem stigu í pontu lögðu ofuráherslu á að tvennt yrði að gulltryggja í samningum við Landsnet:
- að strengurinn verði lagður í jörðu þegar það verður tæknilega mögulegt – í síðasta lagi eftir 15 ár
- að þegar strengurinn verður lagður í jörðu falli enginn kostnaður við þá framkvæmd á sveitarfélagið
Bæjarfulltrúar eru sammála um mikilvægi háspennulínunnar til þess að tryggja nægt framboð rafmagns á svæðinu. „Markmið framkvæmdarinnar er að bæta nýtni og flutningsgetu raforkukerfisins, auka afhendingargetu og tryggja stöðugleika kerfisins,“ segir í tillögunni um breytingu á aðalskipulagi sem samþykkt var samljóða.
Svohljóðandi bókun var síðan samþykkt af öllum 11 bæjarfulltrúum:
- „Samhliða samráðsferli verði unnið að samkomulagi við Landsnet þar sem tryggt verði með óyggjandi hætti hvernig staðið verði að lagningu jarðstrengs eftir að tenging fæst í Hvalfjörð án kostnaðarþátttöku Akureyrarbæjar. Endanleg samþykkt skipulagsins er háð því að slíkt samkomulag náist.“

Frá upplýsingafundi um Blöndulínu 3 í Ráðhúsinu á mánudag þangað sem um 60 manns mættu. Mynd af akureyri.is.
„Að mér setti kuldahroll“
Einn bæjarfulltrúa, Jón Hjaltason, óháður, tók þannig til að orða að að honum hefði sett kuldahroll við að hlusta á frásögn af því, á opnum kynningarfundi daginn áður, hvernig Landsnet hefði staðið að sambærilegu máli í Hafnarfirði. Um það fjallaði Karl Ingólfsson í aðsendri grein sem birtist á akureyri.net á mánudag.
Karl segir m.a. í greininni:
„Landsnet lagði nýlega gamla 220kV loftlínu í jörð innan þéttbýlis í Hafnarfirði eftir að hafa margsvikið fyrri fyrirheit um niðurrif loftlínunnar sem tafið hafði uppbyggingu íbúðarhverfa í rúman áratug.“
Karl segir einnig í greininni:
„Bitur reynsla Hafnfirðinga af hyskni LN um niðurrif 220kV loftlína í þéttbýli er áminning um að ekki er vænlegt að láta eftir kröfum LN um loftlínulagnir sem fyrirtækið er líklegt til að svíkjast um að leggja í jörð vegna hagsmuna byggðar.“