Skákþing Norðlendinga haldið óslitið í 90 ár

Skákþing Norðlendinga hefst á Akureyri í dag og stendur til sunnudags. Mótið fer fram í Brekkuskóla, keppni hefst kl. 18.00 í dag og eru áhorfendur velkomnir.
Ekkert skákmót á Íslandi á sér jafn langa samfellda sögu og Skákþing Norðlendinga, sem haldið hefur verið óslitið í 90 ár.
Árið 1935 var fyrst efnt til Skákþings Norðlendinga á Akureyri og þar bar Skagfirðingurinn Sveinn Þorvaldsson sigur úr býtum og hlaut að launum nafnbótina „Skákmeistari Norðlendinga“. Síðan hefur verið teflt um þennan titil árlega og keppni aldrei fallið niður í þessi 90 ár.
Rúnar Sigurpálsson, til vinstri, hefur einna oftast orðið Skákmeistari Norðlendinga, sex sinnum - síðast 2020. Til hægri er Símon Þórhallsson, Skákmeistari Norðlendinga 2024.
Á þessum tíma hafa Norðurlandsmótin verið haldin víðsvegar í fjórðungnum. Þannig hefur verið telft á Raufarhöfn og í Grímsey, alloft á Siglufirði og í Húnavatnssýslum svo dæmi séu tekin. Í fyrra var mótið haldið að Skógum í Fnjóskadal, en oftast hefur verið teflt á Akureyri og svo verður einnig í þetta sinn, sem fyrr segir.
Keppendur á Skákþingi Norðlendinga árið 1955. Neðsta röð frá vinstri: Anton Magnússon, Marinó Tryggvason, Snorri Sigfússon, Margeir Steingrímsson, Kristinn Jónsson, Haraldur Ólafsson, Jón Ingimarsson og Guðjón M. Sigurðsson. Piltarnir í miðröð, frá vinstri, N.N., Georg Tryggvason, Gunnlaugur Guðmundsson og Bjarni Jónasson. Efsta röð frá vinstri: Angantýr Einarsson, Halldór Elíasson, Helgi Jónsson, Hörður Einarsson, Friðgeir Sigurbjörnsson, Guðmundur Svavarsson, Steinþór Helgason, Jónas Elíasson, Sigurður Jónsson, Ármann Búason, Júlíus Bogason, Sturla Eiðsson, Ingimar Friðinnsson og Randver Karlesson.
Mótið verður sett í sal Brekkuskóla í dag og alls verða tefldar 11 umferðir með atskákarfyrirkomulagi, auk þess sem á morgun, laugardag, verður teflt um Norðurlandsmeistaratitilinn í hraðskák. Vegleg verðlaun eru í boði á mótinu að því er segir í tilkynningu.
Þátttaka á mótinu er öllum heimil, en titilinn „Skákmeistari Norðlendinga“ getur aðeins sá hlotið sem á lögheimili á Norðurlandi.
Búist er við góðri þátttöku á mótinu; reiknað er með að keppendur verði nálægt 30. Núverandi skákmeistari Norðlendinga er Símon Þórhallsson.
Skákþing Norðlendinga 1938. Fremsta röð frá vinstri: Guðbjartur Vigfússon, Guðmundur Guðlaugsson, Guðmundur Arnlaugsson. Standandi þar fyrir aftan, frá vinstri: N.N (nafn ekki vitað), Gunnlaugur Sigurbjörnsson, Kristján Theodórsson, N.N., Arnljótur Ólafsson, Þorsteinn Jónsson, Haukur Snorrason, Jóhann Snorrason, Jón Ingimarsson, Eiður Jónsson, Ólafur Hermannsson, Ingvar Þórarinsson, Júlíus Bogason, Jóhann G. Möller, Hjálmar Theodórsson, Unnsteinn Stefánsson. Efsta röð: Anton Sölvason, Guðmundur Eiðsson, N.N. og Magnús Norðdahl.