Fara í efni
Fréttir

Skákfélagið tekur þátt í Evrópukeppni

Skákfélagið tekur þátt í Evrópukeppni

Skákfélag Akureyrar tekur þátt í Evrópukeppni skákfélaga í fyrsta skipti í vetur. Mótið fer fram í Mayrhofen í Austurríki og hefst 3. október. Sveit félagsins á mótinu skipa þeir Jón Kristinn Þorgeirsson, Rúnar Sigurpálsson, Stefán Bergsson, Áskell Örn Kárason, Arnar Þorsteinsson, Andri Freyr Björgvinsson og Haraldur Haraldsson. 

Hefðbundið starf félagsins er hafið eftir sumarhlé. Æfingar í barna- og unglingaflokki hófust í septemberbyrjun og árlegt haustmót hefst á fimmtudaginn, en þar er teflt um meistaratitil félagsins. Þar er öllum heimil þátttaka og skráning stendur enn yfir.

Strax að Evrópukeppninni lokinni hefst svo Íslandsmót skákfélaga og sendir félagið þrjár sveitir til keppni, þar af tvær í 1. deild.

Myndin er tekin við verðlaunaafhendingu hjá Skákfélagi Akureyrar á síðasta ári.

Aftast eru Akureyrarmeistarinn Rúnar Sigurpálsson, til vinstri, og sigurvegari Haustmótsins 2021, Andri Freyr Björgvinsson, sem báðir verða í liði félagsins á Evrópumótinu. Miðröð frá vinstri: Jökull Máni Kárason, Tobias Matharel, Markús Orri Óskarsson og Emil Andri Davíðsson. Fremsta röð frá vinstri: Alexía Lív Hilmisdóttir og Sigþór Árni Aðalsteinsson.