Fara í efni
Fréttir

Sjúkraflutningamenn loks útskrifaðir á ný

Hluti útskriftarnema, þeir sem mættu til útskriftar ásamt skólastjóra og umsjónarmönnum námsins.
Hluti útskriftarnema, þeir sem mættu til útskriftar ásamt skólastjóra og umsjónarmönnum námsins.

Fyrsta útskrift Sjúkraflutningaskólans í þrjú ár fór fram í Háskólanum á Akureyri á dögunum. Að þessu sinni voru útskrifaðir 534 nemendur fyrir árin 2020 til 2022.

Alls útskrifuðust 224 með grunnréttindi sem sjúkraflutningamenn, EMT, eftir 250 klukkustunda nám en 85 útskrifuðust með framhaldsmenntun í sjúkraflutningum, AEMT, eftir 413 klukkustunda nám. Þá hafa 225 vettvangsliðar, EMR, lokið námi á þessum þremur árum; EMR námið er 40 klukkustundir.

„Þrátt fyrir Covid hefur starfsemin haldist nokkuð þétt. 2020 skar sig þó úr með aðeins 27 námskeið með 238 nemendum. 2021 voru námskeiðin 54 með 560 nemendum og það sem af er þessu ári hafa verið haldin 32 námskeið með 282 nemendum,“ segir á vef Sjúkraflutningaskólans. „Auk þeirra námskeiða sem að áður greinir sinnir skólinn endurmenntunarnámskeiðum fyrir heilbrigðisstarfsfólk auk þess sem við bjóðum upp á endurlífgunarnámskeið frá Evrópska Endurlífgunarráðinu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og sinnum Heilbrigðisstofnunum víða um land með ný- og símenntun sjúkraflutningamanna, hjúkrunarfræðinga og lækna.“

Ekki „leikrit“ heldur dauðans alvara

Námskeið Sjúkraflutningaskólans eru haldin um allt land en grunn og framhaldsnámskeið voru kennd á Akureyri, Ísafirði, Reyðarfirði, Reykjavík og Sandgerði.

Ingimar Eydal skólastjóri sagði við brautskráninguna að virkilega hefði þurft að hafa fyrir hlutunum síðustu þrjú ár, „ekki bara í náminu, heldur ekki síður öllu okkar daglega lífi. Allskonar sértæk læknisfræðileg hugtök eins og stökkbreytingar, hjarðónæmi, samskiptafjarlægð, sóttkví og smitgát urðu á hvers manns vörum og nánast allir voru allt í einu orðnir sérfræðingar í heimsfaraldri,“ sagði Ingimar. „Þetta kallaði á nýjar nálganir í og nýjar lausnir í sjúkraflutningum, og sýndi sig hvað íslenskir sjúkraflutningamenn voru einstaklega lausnarmiðaðir í störfum sínum. Þetta kallaði líka á nýjar nálganir í náminu hjá okkur, fyrst í stað fórum við í að fresta lotum og starfsþjálfun fór úr skorðum en síðan þróuðu leiðbeinendur lausnir til að geta haldið áfram að kenna með nýjum aðferðum og nýjum lausnum. Það að æfa sig með hönskum og maska var ekki lengur „leikrit“ heldur dauðans alvara og gríðarlega mikilvægt að allir færu eftir reglum til að missa ekki heilu námskeiðshópana í smit og þar með fjölskyldur, vinnufélaga, ættingja, leiðbeinendur og svo framvegis.“

Ingimar sagði að tekist hafði að komast í gegnum allan þennan tíma án þess að upp kæmi smit í nokkrum hóp, sumir misstu af sínum lotum vegna sóttkvíar eða einangrunar „en leiðbeinendur lögðu mikið á sig til að námið gengi upp hjá öllum og fórnuðu frítíma sínum til að bjóða upp á aukakennsludaga fyrir þá sem misstu úr.“

Heimasíða Sjúkraflutningaskólans

Hluti útskriftarnema, þeir sem mættu til útskriftar ásamt skólastjóra og umsjónarmönnum námsins.