Fara í efni
Fréttir

Sjónlag hefur opnað fjarlækningastöð

Ólafur Már Björnsson og Jóhann Ragnar Guðmundsson, augnlæknar hjá Sjónlagi, voru á starfsstöð fyrirtækisins á Akureyri í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Augnlæknastöðin Sjónlag í Reykjavík opnaði í dag fjarlækningastöð í húsakynnum Læknastofa Akureyrar á Glerártorgi.

Ekki er um að ræða hefðbundna augnlæknastofu heldur verður þar einkum fylgst með fólki með ákveðna sjúkdóma eftir tilvísun frá augnlæknum. Sjúklingar verða myndaðir nyrðra og lesið úr myndunum í Reykjavík.

Talsmenn Sjónlags segja hægt að spara gríðarlega fjármuni með þessu fyrirkomulagi vegna þess hve margt fólki á landsbyggðinni ferðist til Reykjavíkur vegna slíkra rannsókna á ári hverju.

Þeir leggja áherslu á að starfsstöðin á Akureyri sé ekki venjuleg augnlæknastofa þar sem fólk geti pantað sér tíma til að fara í sjónmælingu eða gangi út með resept fyrir gleraugum. „Það má segja að hér sé hluti af okkar vinnu tekinn út fyrir sviga; eftirlit með ákveðnum þekktum augnsjúkdómum, sykursýki, kölkun í augnbotnum og gláku, svo ég nefni dæmi,“ sagði Ólafur Már Björnsson augnlæknir hjá Sjónlagi í samtali við Akureyri.net í dag.

Inga Berglind Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Læknastofa Akureyrar, kveðst afar glöð að Sjónlag hafi opnað starfsstöðina. „Við leggjum áherslu á að veita sem allra besta heilbrigðisþjónustu og erum mjög spennt,“ sagði hún í dag.

Á Akureyri í dag, frá vinstri: Jónmundur Gunnar Guðmundsson framkvæmdastjóri Sjónlags, Ólafur Már Björnsson augnlæknir, Elísa A. Ólafsdóttir, starfsmaður Sjónlags á Læknastofum Akureyrar, Inga Berglind Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Læknastofa Akureyrar, Jóhann Ragnar Guðmundsson augnlæknir og María Bóel Gylfadóttir hjúkrunarfræðingur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Eftirfylgni er afar mikilvæg þegar augnsjúkdómar eru annars vegar að sögn Ólafs Más og Jóhanns Ragnars Guðmundssonar, starfsbróður hans hjá Sjónlagi, sem einnig var á Akureyri í dag.

„Augnlækningar eru þannig, að við erum betri í að koma í veg fyrir skemmdir í augum heldur en að laga það sem úrskeiðis er farið. Eftirlitið er því mikilvægur þáttur í okkar vinnu og þá viljum við hafa það með ákveðnu millibili, nokkuð þétt í vissum tilvikum, og þá segir sig sjálft að fólk þarf að fara margar ferðir suður. Tæknin sem við bjóðum upp á hér dregur verulega úr þeirri þörf að ferðast,“ segir Ólafur Már.

Tæknibylting

Mikil tæknibylting hefur átt sér stað varðandi augnlækningar á síðustu tveimur áratugum að þeirra sögn og Jóhann Ragnar nefnir að nú sjáist ýmislegt mun betur á myndum en lækni sé mögulegt að greina með öðrum hætti. Enda segja þeir til dæmis fjareftirlit augnlækna vegna sykursýki algengt um allan heim með þeim hætti sem þeir bjóða nú; að sjúklingar séu myndaðir og læknir lesi úr þeim myndum án þess að hitta sjúklinginn.

„Eftirlit með þessum sjúkdómum er mikilvægt því það stórminnkar líkur á alvarlegri sjónskerðingu, til dæmis vegna sykursýki þar sem við getum greint breytingar mjög snemma með þessum nýjustu tækjum,“ segir Jóhann Ragnar. Þá geti fólk brugðist við og þannig haft áhrif á heilsu í sjónhimnu og augnbotnum. Með tilkomu þessara tækja sé því hreinilega hægt að bjarga sjón fólks með sértækum aðgerðum, til dæmis skurðaðgerð eða lyfjagjöf. „Þetta ætti því að vera mikið öryggi fyrir ákveðna sjúklingahópa hér á þessu svæði.“

Eftir að læknir greinir þær myndir sem berast frá Akureyri verða niðurstöðurnar skráðar í Heilsuveru þar sem sjúklingurinn getur nálgast þær. „Ef eitthvað er öðruvísi en við áttum von á eða áttum okkur ekki á höfum við að sjálfsögðu beint samband við sjúklinginn,“ segir Ólafur.

Gríðarlegur sparnaður

Mikið er um að fólk utan af landi koma reglulega í eftirlit hjá augnlæknum á höfuðborgarsvæðinu, sem fyrr segir. „Margir koma reglulega til okkar en með þessum hætti er hægt að spara fólki sporin, ekki síst hér á Akureyri þar sem bara einn augnlæknir er með ansi stórt svæði og við teljum okkur því geta létt undir með því að koma þessum tækjum fyrir hérna,“ segir Ólafur.

Þá nefna þeir, sem skipti samfélagið í heild miklu máli: Hægt sé að spara gríðarlega fjármuni með því að veita umrædda þjónustu víðar en á borgarhorninu. „Ferðakostnaður fólks úti á landi sem ríkið endurgreiðir hleypur á tugum ef ekki hundruðum milljóna á ári,“ segir Ólafur. Það segi þó fjarri því alla söguna því kostnaðurinn er mun meiri en það sem ríkið greiðir til baka. „Stór hluti af þessu fólki er aldraður og það getur verið stórmál að fara suður, fólkið þarf jafnvel aðstandanda til að fara með sér sem hefur aukinn kostnað í för með sér vegna ferðalagsins og vinnutaps,“ segir Jóhann Ragnar Guðmundsson.