Fara í efni
Fréttir

„Sjónhverfingar“ í leikskólamálum

Stéttarfélögin í Alþýðuhúsinu á Akureyri gagnrýna meirihlutann í bæjarstjórn vegna breytinga á fyrirkomulagi leikskólagjaldi fyrir árið 2024.

Félögin sendu frá sér ályktun í dag með yfirskriftinni: Gjaldfrjálsir leikskólar sem hækka leikskólagjöld og skerða þjónustu

Ályktunin er svohljóðandi:

Nú hefur Akureyrarbær kynnt viðamiklar og flóknar breytingar á fyrirkomulagi leikskólagjalda fyrir árið 2024. Þessi nýja gjaldskrá felur í sér sex gjaldfrjálsa tíma milli kl. 8 og 14.

Þetta útspil um gjaldfrjálsan leikskóla virðist einungis vera sjónhverfing því þjónusta sem um 95% foreldra nýta sér núna mun hækka allverulega um áramótin. Þessi útfærsla mun koma barnafólki illa, sama hvar það er staðsett í tekjustiganum.

Fólk með fasta viðveru á lægri launum með mörg börn hafa ekki sama sveigjanleika nema minnka við sig vinnu og eru konur mun líklegri til að minnki við sig starfshlutfall til að þurfa ekki að greiða fyrir viðbótartímann. Það er mikið og erfitt kjaftshögg eftir frábært kvennaverkfall að Akureyrarbær sé að pressa á konur til að vera í hlutastörfum.

Stéttarfélögin í Alþýðuhúsinu á Akureyri mótmæla því harðlega að verið sé að taka upp gjaldtöku sem stuðlar að ójafnrétti kynjanna.

Stéttarfélögin mótmæla einnig harðlega að almenn álög á bæjarbúa munu hækka um 9% um næstu áramót. Þetta er mjög vont innlegg í vaxta og verðbólguumhverfið sem við búum við í dag og hvetjum við því Akureyrarbæ til að endurhugsa þessar hækkanir og sýna ábyrgð í baráttunni við að ná niður vöxtum og verðbólgu.

Byggiðn – Félag byggingamanna

Eining-Iðja

Félag málmiðnaðarmanna Akureyri

Félag verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og nágrenni

Kjölur - Stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu

Rafiðnaðarfélag Norðurlands

Sjómannafélag Eyjafjarðar