Fara í efni
Fréttir

Sjö veitingastaðir í mathöll á Glerártorgi

HAF STUDIO sér um hönnunina á mathöll Glerártorgs. Búið er að ganga frá samningum við sjö veitingaaðila og er enginn þeirra með starfsemi á Akureyri. Því er um hreina viðbót við veitingaflóru bæjarins að ræða.

Ýmsar breytingar standa nú yfir á Glerártorgi í tengslum við tilkomu 600 fm mathallar í norðausturhluta Glerártorgs. Að sögn Sturlu Gunnars Eðvarðssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá fasteignafélaginu Eik, hafa framkvæmdir við mathöllina tafist vegna keðjuverkandi áhrifa í tengslum við tilfærslur verslana innanhúss en nokkrir rekstraraðilar hafa þurft að færa sína starfsemi svo mathöllin geti orðið að veruleika. Nýjustu áætlanir gera þó ráð fyrir því að mathöllin verði opnuð í nóvember ef allt gengur eftir.

Vogue fyrir heimilið er að flytja úr miðbæ Akureyrar og á Glerártorg í haust.

Viðbót við veitingaflóru bæjarins

Um þessar mundir er Sportver að standsetja nýja og glæsilega verslun ásamt því að undirbúa flutning á miðjugang hússins, í hluta af rýminu þar sem Nettó var áður til húsa. Í framhaldinu færist Vodafone í hluta af gamla húsnæði Sportvers. „Vonandi getur niðurrif hafist fljótlega í kjölfar þessara flutninga svo við getum farið að hefja uppbygginguna á mathöllinni,“ segir Sturla. Eitt það fyrsta sem gert verður við rýmið er að setja glugga á hornið sem snýr í norðaustur sem gefa mun rýminu aukna birtu og sýnileika, en að sögn Sturlu verður mathöllinn öll hin vandaðasta.

„Mathallir hafa verið mjög vinsælar á höfuðborgarsvæðinu og það verður gaman að geta boðið Akureyringum upp á þetta „trend“ líka,“ segir Sturla en búið er að ganga frá samningum við sjö veitingaaðila og er enginn þeirra fyrir með starfsemi á Akureyri. Hér er því um hreina viðbót við veitingaflóruna í bænum að ræða. Þá er vert að benda á að Glerártorg er að fara af stað með nafnasamkeppni á Facebook síðu sinni þar sem leitað er eftir nafni á mathöllina og eru glæsileg verðlaun í boði fyrir besta nafnið, að sögn Sturlu.

Katherine Nails & Lashes hefur verið með starfsemi bæði í Kringlunni og Smáralind en fyrirtækið er nú einnig að opna útibú á Akureyri.

Sportver stækkar

Með flutningi Sportvers yfir í nýtt og stærra rými eykst vöruúrval verslunarinnar til muna og áherslurnar breytast. „Ég held mér sé óhætt að segja að Sportver sé að fara að opna eina glæsilegustu sportvörubúð landsins,“ segir Sturla. Þá eru á lokametrunum samningar við alþjóðlega tískuvöruverslun sem mun opna flotta verslun á Glerártorgi í haust. Því miður ekki hægt að greina frá nafni verslunarinnar á þessum tímapunkti en að sögn Sturlu yrði þessi verslun glæsileg viðbót við verslunar flóru Glerártorgs. Verslunin Vouge fyrir heimilið, sem verið hefur til húsa í miðbæ Akureyrar, til fjölda ára mun flytja sig inn á Glerártorg í haust, nánar tiltekið í bakrými gamla Nettó húsnæðisins. Til stendur að búa til sérinngang í þá verslun frá norðurhlið hússins, sem og inn í aðrar verslanir sem snúa út að Borgarbrautinni.

Gestafjöldi á Glerártorgi hefur aukist en framundan eru ýmsar breytingar á verslunarmiðstöðinni. Fleiri verslanir bætast við í haust og aðrar færast til innanhúss til að skapa rými fyrir mathöllina.

Naglastúdíó og fleiri hleðslustöðvar

Önnur nýjung á Glerártorgi er opnun á naglastúdíói í ágúst. Katherine Nails & Lashes hefur verið með starfsemi bæði í Kringlunni og Smáralind en fyrirtækið er nú einnig að opna útibú á Akureyri. Naglastúdíóið verður til húsa á miðjuganginum á móti Rexín, milli H&M og Flying Tiger.

„Það er mikil ánægja með nýafstaðnar breytingar, bæði varðandi flutninginn á Nettó og tilkomu sælkeraverslunarinnar FISK Kompaní á Glerártorg. Við erum að merkja aukningu í gestafjölda sem er nokkuð gott þrátt fyrir aukna samkeppni bæði á matvörumarkaði og öðru á Akureyri. Á heildina litið finnst mér samsetning verslana og þjónustu á Glerártorgi vera mjög góð. Við hefðum kannski viljað sjá meira af erlendum túristum, það er eitthvað sem mætti skoða betur. En það er bara bjart yfir okkur og spennandi tímar framundan,“ segir Sturla og bætir við að enn séu ýmsir ónýttir vaxtarmöguleikar á Glerártorgi, t.d. í tengslum við lækna- og tannlæknaþjónustuna sem fyrir er á torginu.

„Við erum svo að vinna innandyra í alls konar rekstrartengdum umhverfismálum. Við erum t.d. að skipta út allri lýsingu í húsinu fyrir umhverfisvæn ljós. Þá erum við að fara í alvöru sorpflokkun og bæta núverandi flokkunarkerfi verulega. Eins erum við að bæta við hleðslustöðvum til að mæta aukinni eftirspurn frá rafbílaeigendum.“