Fara í efni
Fréttir

Sjálfsbjörg á Akureyri veitir nokkra styrki

Fengu styrk úr Hjálparsjóði Sjálfsbjargar á Akureyri. Frá vinstri: Jón Heiðar Jónsson, sem tók við styrknum fyrir hönd Bjarneyjar dóttur sinnar, Herdís Ingvadóttir, Karl Guðmundsson, og Jósep Sigurjónsson, sem afhenti styrkina. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þrír styrkir voru í gær veittir úr Hjálparsjóði Sjálfsbjargar á Akureyri og á sama tíma fékk Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis styrk frá Sjálfsbjörgu.

Hjálparsjóðurinn veitir styrki til félagsmanna í Sjálfsbjörgu og að þessu sinni fengu styrk, Herdís Ingvadóttir, formaður félagsins, vegna ramps sem hún setti upp við heimili sitt, Karl Guðmundsson – listamaðurinn Kalli – vegna heimildarmyndar sem er í vinnslu um líf hans og list, og Bjarney Jónsdóttir, sem er í háskólanámi á Ítalíu. Það var Jósep Sigurjónsson sem afhenti styrkina í samkvæmi sem haldið var í húsnæði Sjálfsbjargar á Bjargi.

Þá styrkti Sjálfsbjörg í gær sem fyrr segir Velferðarsjóð Eyjafjarðarsvæðis. Sjóðurinn er samstarfsverkefni Hjálpræðishersins, Rauða krossins, Hjálparstarfs kirkjunnar og Mæðrastyrksnefndar Akureyrar, og aðstoðar þá sem lítið hafa á milli handanna, bæði fyrir jólin og á öðrum árstímum.

Kristín Björk Gunnarsdóttir stjórnarkona í Velferðarsjóðnum, veitti styrknum viðtöku.

Kristín Björk Gunnarsdóttir, stjórnarkona í Velferðarsjóði Eyjafjarðasvæðis, og Herdís Ingvadóttir, formaður Sjálfsbjargar.