Fara í efni
Fréttir

Sigurður Marinó og Fannar Daði meiddir

Sigurður Marinó Kristjánsson, Fannar Daði Malmquist og Sölvi Sverrisson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Tveir lykilmanna Þórsliðsins í knattspyrnu, fyrirliðinn Sigurður Marinó Kristjánsson og Fannar Daði Malmquist, verða ekki meira með í sumar vegna meiðsla. Orri Hjaltalín, þjálfari Þórs, greindi frá þessu í viðtali við fotbolti.net eftir tapið gegn Kórdrengjum í kvöld. Hvorugur þeirra var með í leiknum.

Sigurður Marinó er ristarbrotinn og Fannar Daði að líkindum kviðslitinn. Báðir hafa þeir verið áberandi í sóknarleik Þórsliðsins í sumar.

Óhætt er að segja að kvarnast hafi úr sóknarhluta Þórsliðsins eftir því sem liðið hefur á sumarið; Sölvi Sverrisson meiddist um mitt sumar og hefur verið frá síðan, Alvaro Montejo fór heim til Spánar seint í júní og Jakob Snær Árnason fór í KA á dögunum.

Þórsarar eru í áttunda sæti deildarinnar með 19 stig að loknum 17 leikjum. Neðstu tvö liðin eru Þróttur með 11 stig eftir 18 leiki og Víkingur frá Ólafsvík, sem hefur nælt í fimm stig úr 17 leikjum.

Þór á eftir fimm leiki og því eru 15 stig í pottinum. Næstu tveir leikir eru á heimavelli, Fjölnismenn koma í heimsókn á laugardaginn og ÍBV á þriðjudag í næstu vikur.

Þetta eru leikirnir sem eftir eru:

  • Þór – Fjölnir
  • Þór – ÍBV
  • Vestri – Þór
  • Þór – Selfoss
  • Þróttur – Þór