Fara í efni
Fréttir

Siggi Gúmm mættur á Ráðhústorgið

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Sigurður Guðmundsson, athafnamaður, lést langt um aldur fram 19. apríl í Lusaka, höfuðborg Sambíu, aðeins 53 ára að aldri. Útför hans verður frá Akureyrarkirkju í dag.

Í morgun hafði stórri mynd af Sigurði verið komið fyrir á Ráðhústorgi honum til heiðurs. Mikla athygli vakti árið 2008 þegar Siggi tók sig til ásamt nokkrum vinum og þökulagði torgið í skjóli nætur fyrir verslunarmannahelgina. 

Á árum áður var Ráðhústorg grasi vaxið, fallegur og vinsæll staður en það breyttist eftir að svæðið var allt hellulagt. Sigurður vildi glæða staðinn lífi á ný og ákvað að þökuleggja hluta torgsins á eigin kostnað og það féll vægast sagt í góðan jarðveg hjá bæjarbúum. Þar hefur gras prýtt blettinn nær allar götur síðan.