Fara í efni
Fréttir

Síðustu forvöð að skoða Ævintýragarð Hreins

Ævintýragarði Hreins Halldórssonar við Oddeyrargötu 17, sem hefur verið opinn í allt sumar, verður lokað eftir viku; frá og með mánudeginum 15. september.

„Aðsókn gesta í garðinn hefur verið mjög góð og eins og ávallt hefur umgengni gesta verið til fyrirmyndar og sýnir það að vel er hægt að treysta fólki til að ganga vel og snyrtilega um svæði þar sem aðgangur er ókeypis og ekkert eftirlit. Auk þess hafa gestir virt opnunartímann sem hefur verið frá klukkan tíu að morgni til átta að kveldi,“ segir í tilkynningu frá Hreini.

Vetrardvöl innandyra

„Prinsessur, prinsar, drottningar, dvergar og aðrar persónur í Ævintýragarðinum fara því ánægðar inn í hús til vetrardvalar þar sem tíminn mun verða nýttur til að yfirfara og laga það sem hefur látið á sjá í sumar. Trúlega heimtar sumt af þessu kóngafólki nýjar flíkur fyrir næsta sumar eða nýjar kórónur enda þetta fólk vant því að láta alþýðumanninn snúast í kringum sig.“

Hreinn, sem kallar sig alþýðulistamann, hefur opnað garðinn við heimili sitt gestum og gangandi að sumarlagi síðustu ár.  Garðurinn hefur verið fjölsóttur og vakið mikla athygli.

„Þrátt fyrir að flestar persónur Ævintýragarðsins fari inn í hús til vetrardvalar stendur ekki öllum það til boða. Skessunni Króknefju er ekki boðið inn enda er hún vön að standa úti í öllum veðrum og mun gæta garðsins í vetur og bíða þolinmóð eftir næsta sumri. Í hennar huga er hún drottning fjallanna þó mannfólkið sjái hana ekki í því ljósi en sannarlega mun hún drottna yfir Ævintýragarðinum í vetur,“ segir Hreinn Halldórsson.

  • Smellið hér til að sjá frétt akureyri.net um opnun Ævintýragarðsins í vor.