Fara í efni
Fréttir

Selja um 40 þúsund bollur!

Bollur fást í ýmsum stærðum og gerðum - og fagurlega skreyttar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Bollur fást í ýmsum stærðum og gerðum - og fagurlega skreyttar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Gera má ráð fyrir að akureyrskir bakarar selji um 40 þúsund bollur að þessu sinni! Segja má að „bolludagurinn“ lengist sífellt, því algengt er að menn þjófstarti og bjóði upp á bollur tvær helgar. Bæjarbúar og ferðamenn – sem hafa verið fjölmargir í bænum upp á síðkastið – taka því fagnandi. Sala hófst svo af krafti á fimmtudaginn var, stemningin stigmagnaðist og venju samkvæmt seldist mjög mikið í gær. Örtröð var svo í bakaríunum í morgun og einn bakarameistarinn kvaðst vart hafa undan. 

Það er af sem áður var þegar gamla, „góða“ gerbollan með glassúr og rjóma var allsráðandi. Hún er reyndar enn í boði og selst talsvert en fjölbreytnin er orðin ótrúlega mikil, bollur af öllum stærðum og gerðum í boði og í öllum regnbogans litum, rjóminn blandaður alls kyns bragðtegundum og bollurnar skreyttar með ýmsu móti.

Gleðilegan bolludag!