Fara í efni
Fréttir

Segja rétt staðið að boðun aðalfundar

Hanna Dóra Markúsdóttir, til vinstri, og Helga Dögg Sverrisdóttir.

Fjórar stjórnarkonur í stjórn Bandalags kennara á Norðurlandi eystra, BKNE, lögðu fram bókun á fundi stjórnarinnar í dag þar sem þær segja að í einu og öllu hafi verið staðið rétt að málum varðandi boðun aðalfundar BKNE, tilkynningu um lagabreytingar og kosningar á fundinum. Ákvarðanir aðalfundar 5. október séu því bindandi og Hanna Dóra Markúsdóttir rétt kjörin sem formaður BKNE og taki hún við formennsku félagsins frá og með deginum í dag.

Að ályktuninni standa Pollý Rósa Brynjólfsdóttir, Jónína Vilborg Karlsdóttir, Erla Rán Kjartansdóttir og Sigríður Sigmundsdóttir.

Segja álit lögmanns Helgu Daggar ekki standast

Ályktunin kemur í framhaldi af tilkynningu sem birtist á Facebook-síðu BKNE upp úr hádegi í gær, en var svo fjarlægð nokkrum klukkustundum síðar. Í þeirri færslu, sem gera má ráð fyrir að fráfarandi formaður, Helga Dögg Sverrisdóttir, beri ábyrgð á, var tilkynnt að aðalfundurinn hafi verið ólöglegur þar sem hann hafi verið boðaður með of skömmum fyrirvara, sem og lagabreytingar og formannskjör. Í tilkynningu Helgu Daggar var vísað í álit Arnars Þórs Jónssonar hæstaréttarlögmanns á atburðarásinni.

Í bókun stjórnarkvennanna er vísað í bréf lögmannsins um lögmæti fundarins. Þær hafi sjálfar leitað álits lögfræðistofu, sem þó er ekki nefnd á nafn, og þar á bæ hafi niðurstaðan verið, eftir að hafa farið yfir öll gögn í málinu, að athugasemdir lögmanns Helgu Daggar standist ekki skoðun og að í einu og öllu hafi verið staðið rétt að málum samkvæmt lögum félagsins, bæði hvað varðar boðun aðalfundar, tilkynningu um lagabreytingar og kosningar.”

Ályktun stjórnarkvennanna fjögurra er svohljóðandi:

Á fundi stjórnar Bandalags kennara á Norðurlandi eystra (hér eftir BKNE) í dag, lögðu undirritaðar stjórnarkonur fram svohljóðandi bókun:

„Aðalfundur BKNE hefur æðsta vald í málum svæðafélagsins. Staðið var í einu og öllu rétt að málum lögum samkvæmt, bæði hvað varðar boðun aðalfundar, tilkynningu um lagabreytingartillögur og kosningar. Ákvarðanir sem aðalfundur BKNE samþykkti þann 5. október sl. eru því bindandi.

Stjórn BKNE fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda og ber að taka ákvarðanir með hag félagsmanna að leiðarljósi í samræmi við niðurstöðu aðalfundar. Með vísan til framangreinds er Hanna Dóra Markúsdóttir rétt kjörinn formaður BKNE samkvæmt niðurstöðu aðalfundar og tekur hún við formennsku félagsins frá og með deginum í dag.“

Tilefni ofangreindrar bókunar er bréf frá lögmanni Helgu Daggar Sverrisdóttur fráfarandi formanns BKNE þar sem gerðar voru ýmsar athugasemdir við verklag í tengslum við aðalfund félagsins og á því byggt að kosning nýs formanns hafi verið ólögleg.

Undirritaðar stjórnarkonur leituðu álits lögfræðistofu sem komst að því eftir að hafa farið yfir öll gögn í málinu, að athugasemdir lögmanns Helgu Daggar standist ekki skoðun og að í einu og öllu hafi verið staðið rétt að málum samkvæmt lögum félagsins, bæði hvað varðar boðun aðalfundar, tilkynningu um lagabreytingartillögur og kosningar. Ákvarðanir sem aðalfundur BKNE samþykkti þann 5. október sl. séu því bindandi og ekki hægt að efast um lögmæti þeirra.

Stjórn BKNE vonast nú til að ofangreindu máli sé lokið og að hægt verði að einbeita sér að því að efla samvinnu og samstöðu félagsmanna og vinna að bættum kjörum og starfsskilyrðum þeirra eins og hlutverk BKNE gengur út á.

Pollý Rósa Brynjólfsdóttir
Jónína Vilborg Karlsdóttir
Erla Rán Kjartansdóttir
Sigríður Sigmundsdóttir