Fara í efni
Fréttir

Segir Akureyrarbæ mismuna börnum

Björn Valur Gíslason, sjómaður á Akureyri og fyrrverandi alþingismaður, segir í aðsendri grein sem birtist í dag á Akureyri.net, að Akureyrar mismuni leikskólabörnum. Mismunurinn felist í því að foreldrum barna sem fædd eru á tímabilinu júní 2019 til ágúst 2020 verði nú gert að greiða sérstakt tímabundið 10% álag ofan á almennt leikskólagjald umfram það sem greiða skal fyrir önnur börn.

Björn Valur segir lengi vel hafa verið fátt um svör þegar spurst var fyrir um málið hjá Akureyrarbæ og ef rétt sé, sem fram komi í svari bæjarlögmanns til hans, að bæjarstjórn Akureyrar hafi samþykkt einum rómi að leggja 10% viðbótargjald á leikskólagjöld barna fæddra innan tiltekins tímabils verði bæjarfulltrúar að útskýra hvers vegna þeir tóku þá ákvörðun, hver tilgangurinn með henni sé og hvernig ákvörðun þeirra fellur að markmiðum og stefnu bæjarins að íbúum skuli ekki mismunað vegna aldurs.

Hann segir: Bæjarstjórn Akureyrar ætti auðvitað að afturkalla þetta 10% yngstu barna gjald. Í því felst ekki aðeins gróf mismunun heldur er það óréttlátt, auk þess sem vafi leikur á hvort gjaldið hafi yfir höfuð verið samþykkt í bæjarstjórn og þar með vafi um gildi þess.

Smelltu hér til að lesa grein Björns Vals.