Fara í efni
Fréttir

Sárt að horfa upp á hræðilegan raunveruleikann

Bátur flóttafólksins í fjörunni í El Médano í morgun. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir.

Snæfríður Ingadóttir, fjölmiðlakona frá Akureyri, sem dvelur með fjölskyldunni á Tenerife þessa dagana, varð vitni að því í morgun þegar lögreglumenn báru lík flóttamanna af ströndinni steinsnar frá heimili hennar. Hún komst þannig í snertingu við þær gríðarlegu hörmungar sem fjöldi fólks, sem freistar þess að búa sér og sínum betra líf, lendir í.

Lítinn bát rak upp í fjöruna í nótt. Um borð voru 14 manns frá Afríku og reyndust fjórir látnir, eftir því sem Snæfríður kemst næst.

„Við Vesturlandabúar erum miklir forréttindapésar og megum ekki gleyma því. Á meðan við förum í ferðalag af fúsum og frjálsum vilja leggur fjöldi fólks upp í svona hættuför út í óvissuna, í algjörri neyð, í leit að betra lífi,“ segir Snæfríður við Akureyri.net

Snæfríður og fjölskylda eru tímabundið í bænum El Médano á suðausturströnd Tenerife, bænum þar sem þau bjuggu fyrir tveimur árum. Þau hafa oft verið þar um jólaleytið.

„Ég hef auðvitað fylgst með fréttum í fjölmiðlum eins og aðrir en það er öðruvísi að sjá það með eigin augum þegar lögregla ber líkpoka af ströndinni. Ég fór út að hlaupa í morgun og lögreglan stoppaði mig í götunni minni. Búið var að loka svæðinu og verið að bera líkpokana inn í bíla. Þetta er hræðilega sorglegt. Angist heimsins er nær en mann grunar,“ segir Snæfríður. „Það er súrrealískt að stuttu seinna er fólk svo komið niður á strönd til að njóta sólarinnar og synda í sjónum. Það er sárt að horfa upp á það, en svona er raunveruleikinn – því miður.“

UPPFÆRT - Snæfríður hafði sambandi við Akureyri.net í kvöld og leiðrétti þær upplýsingar sem hún hafði fengið á vettvangi í morgun. Ekki voru 14 í bátnum, heldur hvorki fleiri né færri en 47! Ótrúlegt en satt, í þessum litla báti. Fjölmiðlar ytra greina frá þessu í kvöld.

  • Á myndinni eru hjónin, Snæfríður og Matthías Kristjánsson, og dæturnar Ragnheiður Inga, Margrét Sóley og Bryndís Brá.