Fara í efni
Fréttir

Sandra og Baldvin íþróttafólk Akureyrar

Baldvin Þór Magnússon íþróttakarl Akureyrar á sviðinu í Hofi í dag – og Sandra María Jessen, íþróttakona Akureyrar, þegar hún hlaut nafnbótina fyrir réttu ári. Sandra er nú við störf sem knattspyrnumaður í Þýskalandi og Jóhanna móðir hennar veitti verðlaunagrip Söndru viðtöku í dag. Myndir: Axel Darri Þórhallsson

Sandra María Jessen knattspyrnukona hjá 1. FC Köln í Þýskalandi og Baldvin Þór Magnússon hlaupari úr Ungmennafélagi Akureyrar voru kjörin íþróttakona og íþróttakarl Akureyrar árið 2025, eins og akureyri.net greindi fyrr í kvöld. Hér er að finna ítarlegri upplýsingar um kjörið.

Þetta er þriðja árið í röð sem Sandra María er kjörin besta íþróttakona bæjarins og Baldvin Þór hlotnaðist nafnið í annað skipti, hann var einnig kjörinn árið 2023.

Niðurstaða árlegs kjörs var kunngjörð á íþróttahátíð sem Íþróttabandalag Akureyrar og Akureyrarbær stóðu fyrir í menningarhúsinu Hofi síðdegis í dag.

Af 20 aðildarfélögum ÍBA tilnefndu 13 þeirra alls 46 íþróttamenn úr sínum röðum, 20 íþróttakonur og 26 íþróttakarla. Úr þeim tilnefningum var svo kosið á milli tíu karla og tíu kvenna sem stjórn Afrekssjóðs hafði stillt upp.

  • Í öðru sæti voru þau Hallgrímur Mar Steingrímsson knattspyrnumaður hjá KA og Julia Bonet Carreras blakkona í KA.
  • Í þriðja sæti urðu Alex Cambray Orrason kraftlyftingamaður úr KA og Hafdís Sigurðardóttir hjólreiðakona úr HFA.
  • Í fjórða sæti voru Unnar Hafberg Rúnarsson íshokkímaður úr SA og Stefanía Daney Guðmundsdóttir frjálsíþróttakona hjá UFA.
  • Í fimmta sæti urðu Bjarni Ófeigur Valdimarsson handboltamaður hjá KA og Andrea Ýr Ásmundsdóttir kylfingur hjá GA.

Flest þau efstu í kjöri íþróttakarls og íþróttakonu Akureyrar 2025 eða fulltrúar þeirra. Frá vinstri Julia Bonet Carreras (2), Unnar Hafberg Rúnarsson (4),  Alex Cambray (3), Baldvin Þór Magnússon (1), Jóhanna Jessen (móðir Söndru Maríu Jessen, íþróttakonu Akureyrar), Hallgrímur Mar Steingrímsson (2), Bjarni Ófeigur Valdimarsson (5), Þórdís Sigurðardóttir (móður Hafdísar Sigurðardóttur hjólreiðakonu sem varð í 3. sæti) og Stefanía Daney Guðmundsdóttir (4.) Mynd: Axel Darri Þórhallsson

BALDVIN ÞÓR MAGNÚSSON 

Í umsögn ÍBA um íþróttakarl ársins á Akureyri sagði:

  • Baldvin Þór Magnússon er íþróttakarl Akureyrar í annað sinn. Baldvin Þór er fæddur á Akureyri en flutti ungur til Bretlands með foreldrum sínum.
  • Hann fór á íþróttastyrk til Bandaríkjanna í háskólanám og æfði þar og keppti í fimm ár. Hann hefur nú snúið aftur til Bretlands og æfir þar með sterkum hópi hlaupara. Baldvin heldur góðum tengslum við heimalandið og kemur reglulega heim og tekur þátt í mótum, nú síðast á RIG síðastliðna helgi.
  • Baldvin er einn allra sterkasti millivegalengda- og langhlaupari sem Ísland hefur átt. Hann hefur náð framúrskarandi árangri á undanförnum árum í hlaupum frá 1500 m og upp í 10 km hlaup.
  • Hann á sem stendur sautján virk Íslandsmet, sex í yngri aldursflokkum og ellefu í flokki fullorðinna.
  • Helsta íþróttaafrek hans á árinu 2025 voru:
  • Íslandsmet í 1500 m innanhúss – 3:39,67 mín.
  • Íslandsmet í 3000 m innanhúss – 7:39,94 mín.
  • Íslandsmet í 10 km götuhlaupi – 28:37 mín.
  • Norðurlandameistari í 3000 m innanhúss
  • Íslandsmeistari í 1500 m utanhúss
  • Sigur og brautarmet í 10 km í Reykjavíkurmaraþoni

Baldvin Þór Magnússon, íþróttakarl Akureyrar 2025 á sviðinu í dag ásamt Jóhönnu Jessen, móður Söndru Maríu Jessen, íþróttakonu Akureyrar 2025. Sandra er í Þýskalandi þar sem hún starfar sem knattspyrnumaður hjá 1. FC Köln. Baldvin Þór býr einnig erlendis en var viðstaddur kjörið á Akureyri í fyrsta sinn í dag. Mynd: Axel Darri Þórhallsson

SANDRA MARÍA JESSEN

Í umsögn ÍBA um íþróttakonu ársins á Akureyri sagði meðal annars:

  • Sandra María Jessen er íþróttakona Akureyrar í þriðja sinn. Sandra María var lykilleikmaður í liði Þórs/KA í Bestu deildinni í sumar, fyrirliði liðsins og leiddi liðið í markaskorun.
  • Hún sýndi ítrekað hve mikilvæg hún var liði sínu og í raun ein besta knattspyrnukona sem spilaði í Bestu deildinni á árinu.
  • Sandra María spilaði samtals 21 leik fyrir Þór/KA í Íslandsmóti, bikarkeppni og deildarbikar árið 2025 og skoraði 17 mörk. Þar af voru 14 leikir og 10 mörk í Bestu deildinni.
  • Sandra María spilaði 12 landsleiki á árinu, þar af var hún í byrjunarliðinu í átta leikjum.
  • Hún náði þeim áfanga á árinu að spila sinn 50. landsleik fyrir Íslands hönd og var ein af bestu leikmönnum íslenska landsliðsins á lokamóti EM í sumar.
  • Frammistaðan á EM vakti athygli og varð Sandra eftirsótt af erlendum liðum í kjölfarið. Í lok ágúst hafði Sandra vistaskipti til þýska úrvalsdeildarfélagsins 1. FC Köln þar sem hún hefur farið á kostum.
  • Sandra er lang markahæst í liði 1. FC Köln og meðal markahæstu kvenna í þýsku úrvalsdeildinni það sem af er yfirstandandi keppnistímabili.