Fara í efni
Fréttir

Samkeppniseftirlitið tekur sér lengri tíma

Samkeppniseftirlitið tekur sér lengri tíma

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur ákveðið að taka sér lengri tíma en gert var ráð fyrir til að komast að niðurstöðu varðandi samruna Kjarnafæðis og Norðlenska. Samkvæmt síðustu áætlun mátti eiga von á því á föstudag, 19. febrúar, að eftirlitið tilkynnti hvort það heimilaði samruna félaganna, en stofnunin nýtti sér þann rétt sinn að lengja frest til að komast að niðurstöðu þar til um mánaðamótin mars/apríl, skv. heimildum Akureyri.net.

Eigendur Kjarnafæðis og Norðlenska komust að samkomulagi um helstu skilmála samruna félaganna í byrjun júlí á síðasta ári. Með samruna kváðust eigendur félaganna vera að bregðast við breytingum í rekstrarumhverfi matvælaiðnaðar misserin þar á undan. „Það er mat eigenda félaganna að sameinað félag sé betur í stakk búið til að veita viðskiptavinum sínum og birgjum, ekki síst bændum, góða þjónustu á samkeppnishæfu verði,“ sagði í tilkynningu frá félögunum á þeim tíma.

Kjarnafæði og Norðlenska höfðu þá átt í viðræðum um samruna frá því haustið 2018. Fyrrnefnda félagið er í eigu bræðranna Eiðs og Hreins Gunnlaugssona, en Norðlenska er í eigu Búsældar, félags um 500 bænda.