Fara í efni
Fréttir

Samfélagið þarf að hugsa sinn gang

Hlín Bolladóttir, grunnskólakennari til áratuga, er ómyrk í máli í merkilegri grein sem birtist á akureyri.net og hún skrifar í tilefni græna dagsins, alþjóðlegs dags gegn einelti, 8. nóvember.
 
„Stærsta verkefnið okkar í þessu lífi er að verða góðar og ærlegar manneskjur. Það er auðvitað nauðsynlegt að læra íslensku, stærðfræði, sögu, ensku, dönsku, smíði og hvað sem verða vill til þess að við komumst eitthvað áfram en mikilvægast er samt alltaf að við vöndum okkur í samskiptum og komum fram af umhyggju, skilningi og virðingu,“ segir Hlín í greininni.
 
Þakklát fyrir að vera fórnarlamb
 
Hlín segir græna deginum ætlað að vekja sérstaka athygli á einelti en í lífi kennarans sé sá dagur allt árið, eða ætti að vera það, vegna þess að börn og ungmenni verji miklum tíma í skólanum og þar sem hundruð óþroskaðra sála komi saman séu árekstrar óumflýjanlegir.
 
Hún segir: „Stundum freistast ég til þess að þakka sérstaklega fyrir það að hafa verið fórnarlamb eineltis og náð þeirri gæfu að vinna farsællega úr því. En ég er enn að vinna úr því að bæði börnin mín hafi þurft að feta þann veg – það er eiginlega enn sárara. Þessi reynsla setur mark sitt á allt lífið og stundum freistast ég til að hugsa hvað hefði orðið úr mér ef ég hefði ekki þurft að „taka þennan slag“.“
 
Einelti er samfélagsmein
 
Hlín bendir á að hafa beri í huga að einelti sé alls ekki bara skólatengt. „Það er samfélagsmein! Einelti á sér stað á vinnustöðum fullorðinna, í fjölskyldum, vinahópum og eiginlega hvar sem er. Einelti er skilgreint sem ofbeldi og það var ákveðinn sigur þegar það var sagt hreint út.“
 
Hlín er grunnskólakennari til áratuga, eins og áður kom fram, og segir börn tilbúin „að skilja þessa hluti þegar þeir eru ræddir og útskýrðir en það eru fullorðnir sem bera ábyrgðina – börn læra það sem fyrir þeim er haft.“ 
 
Hún nefnir þær miklu samfélagsbreytingar sem orðið hafa hérlendis síðustu áratugi. „Þar sem áður dugði að gera stöðugt grín að sama fólkinu í sveitarfélögum, jafnvel heilu fjölskyldunum sem urðu skotspónn kynslóð eftir kynslóð, hefur það færst yfir á fólkið sem kýs að koma hingað erlendis frá í leit að betra lífi, oft frá stríðshrjáðum heimi.“
 
Sjálfhverf og ógeðfelld
 
Hlín telur íslenskt samfélag þurfa að hugsa sinn gang í samskiptum! Fordómar gagnvart húðlit fólks eða uppruna séu tákn heimsku og þekkingarleysis, „forrréttindablindu og ógeðfelldrar sjálfhverfu!“ 
 
Hún hefur tekið að sér að kenna fullorðnum nýbúum íslensku, ekki sé hægt að kenna þeim um áhugaleysi en reynslan sé hins vegar sú að Íslendingar séu ekki tilbúnir til að hlusta og tala íslensku við nýbúa.
 
Fólk fer í búðir eða í stofnanir og ætlar að nota þekkingu sína en það er strax talað við það á ensku og enginn tími til að hlusta og leiðrétta. Það lærir enginn tungumál nema hann fái tækifæri til að nota það! Ég skammast mín fyrir samlanda mína þegar ég heyri þetta og get ekki með nokkru móti afsakað það. Við gerum kröfu um það að fólk sem hingað kemur læri tungumálið okkar en við ætlum ekki að taka þátt í því! Hversu sjálflægt getur samfélag orðið?“ Og svo er bara talað um „helvítis útlendingana!“ skrifar Hlín Bolladóttir.
 
„Viljum við í raun vera svona sjálfhverf og ógeðfelld þjóð? Við þurfum að taka til í eigin ranni og það ekki seinna en strax því það er og verður alltaf stærsta verkefnið okkar í þessu lífi að verða góðar og ærlegar manneskjur – og fyrirmyndir næstu kynslóða.“
 

Grein Hlínar: Græni dagurinn