Fara í efni
Fréttir

Sálmur Hildar Eirar og Eyþórs í nýrri sálmabók

Sálmur eftir séra Hildi Eir Bolladóttur, prest í Akureyrarkirkju, og Eyþór Inga Jónsson, organista í kirkjunni, verður í nýrri sálmabók sem kemur út í haust. Hildur Eir samdi textann og Eyþór lagið.

Fyrsta erindið sálmsins er svona:

Eigum við að fæðast til að deyja,
Drottinn minn?
Er lífsbaráttan virði þess að heyja,
Drottinn minn?
Er eilífðin þá búin til úr von
sem fengin er í samfylgd við þinn son?

„Nýrrar sálmabókar er beðið með óþreyju og eftirvæntingu en þar verðar fjölmargir nýir og ferskir sálmar í bland við þá gömlu og góðu og dýrmætu sem fylgt hafa þjóðinni um langa tíð á gleði jafnt sem sorgarstundum. Ég er afar meyr og þakklát fyrir að eiga þátt í þessari sköpun sem sálmabókin er. Sálmurinn er saminn árið 2017,“ skrifaði Hildur Eir á Facebook í morgun og birti meðfylgjandi mynd.