Fara í efni
Fréttir

SAk rekið með 146,9 milljóna halla í fyrra

Sjúkrahúsið á Akureyri.

Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) var rekið með 146,9 milljóna króna halla árið 2021. Þetta kom fram á ársfundi sjúkrahússins sem fram fór í dag. Forstjórinn segir nauðsynlegt að fjárframlög verði aukin til að tryggja aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu.

Rekstur SAk á síðasta ári markaður af baráttunni við Covid-19 faraldurinn sem hafði margvísleg áhrif á starfsemina. Þrátt fyrir það varð mikil aukning á ýmsum sviðum starfseminnar frá árinu áður, að því er fram kom á fundinum.

Mikil áskorun

Áhrifin á starfsemina voru greinileg þegar toppar komu í Covid-19 faraldurinn með röskun á starfsemi dag- og göngudeilda, frestun valaðgerða á skurðstofum með óhjákvæmilegum áhrifum á lengingu biðlista og biðtíma. Hins vegar gekk almennt vel að veita nauðsynlega bráðaþjónustu, þrátt fyrir gríðarlega mikið álag á starfsfólk SAk, að sögn Hildigunnar.

„Rekstur sjúkrahússins er mikil áskorun. Halli hefur verið á rekstrinum og snúa þarf þeirri þróun við. Á sama tíma er mikilvægt að halda áfram að efla þjónustuna við íbúa samfélagsins, í takt við þarfir þeirra. Því er nauðsynlegt að fjárframlög verði aukin til að tryggja aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu í samfélaginu,“ sagði Hildigunnur Svavarsdóttir í dag.

Nokkrar áhugaverðar staðreyndir sem fram komu á fundinum:

  • Komum sjúklinga á dagdeildir fjölgaði um tæp 24% milli ára og voru 7.268.
  • Framkvæmdar voru 473 gerviliðaaðgerðir samanborið við 331 árið áður og nemur aukningin 43%.
  • Farin voru 30% fleiri sjúkraflug en árið áður, alls 807.
  • Almennum rannsóknum fjölgaði um tæp 20% sem og myndgreiningum sem fjölgaði um 23%.
  • Skurðaðgerðum fjölgaði um 11% og var 3.181 aðgerð framkvæmd á árinu, að gerviliðaðgerðum meðtöldum.
  • Legudagar voru 28.384 og fjölgaði um 11%. Dvölum á legudeild fjölgaði um 22% og voru 6.330 á árinu.
  • Í heildina voru sjúklingar 13.598 talsins og fjölgaði um 22%. Meðallegutími var 4,5 dagar sem er stytting um 0,4 dag frá fyrra ári.
  • Á árinu fæddu 488 konur 491 barn, sem er fjölgun um tæp 26% á milli ára. Aðeins einu sinni hafa fleiri börn fæðst á einu ári á sjúkrahúsinu.
  • Viðtölum lækna á göngudeildum fjölgaði um tæp 16% og voru 13.666 á árinu. Þá fjölgaði komum í aðra göngudeildarstarfsemi um 8% og voru 12.577.
  • Laun og launatengd gjöld voru tæpir 8,5 milljarðar króna; hækkuðu um 751 milljón á milli ára.
  • Alls störfuðu 960 manns við sjúkrahúsið, sjö fleiri en árið áður. Karlar voru 170 og konur 790.
  • „Setnar stöður“ voru að meðaltali 561,6 og fjölgaði um 44,4 stöður á milli ára. Aukningin kemur að sögn helst til vegna breytinga sem tengjast betri vinnutíma vaktavinnufólks.
  • Árslaun á hverja stöðu voru að meðaltali 12 milljónir króna.
  • Heildarútgjöld vegna reksturs hækkuðu um 14,4% á milli ára og voru tæpir 11,2 milljarðar króna miðað við 9,8 milljarða árið áður.