Fara í efni
Fréttir

Kaupa Saga Travel og tengd vörumerki

Anton Freyr Birgisson og Baldvin Esra Einarsson. Ljósmynd: Halldór Óli.

Baldvin Esra Einarsson og Anton Freyr Birgisson hafa fest kaup á vörumerki og vefsíðum ferðaþjónustufyrirtækisins Saga Travel og systurfélaga þess, GeoIceland og Iceland Horizon. 

Saga Travel var stofnað á Akureyri 2009 og var lengi vel umsvifamikið í skipulagningu og sölu dagsferða frá Akureyri, Mývatnssveit og Reykjavík. Hallað hafði undan fæti í rekstrinum og það reyndist félaginu ofviða þegar ferðamennska allt að því lagðist af vegna Covid faraldursins. Það var því tekið til gjaldþrotaskipta síðastliðið vor. Þá voru 15 fastráðnir starfsmenn hjá fyrirtækinu, auk leiðsögumanna og verktaka.

„Hvorugur okkar átti neitt í fyrirtækinu, en ég var starfsmaður. Anton rekur sitt eigið fyrirtæki í Mývatnssveit, Geo Travel, sem vann mikið með Saga Travel og þannig kynntumst við. Við trúum á að ferðaþjónusta á Íslandi rétti úr kútnum, erum bjartsýnir á framtíð hennar og hlökkum til að starfa með ástríðufullu ferðaþjónustufólki á þeim góða grunni sem byggður hefur verið,“ segir Baldvin Esra við Akureyri.net.

Atvinnuhöfnunarferli engum hollt lengi!

Þeir félagar keyptu Saga Travel og systurfélögin  af þrotabúinu en Baldvin segir að þeir fari sér að engu óðslega og vill ekkert segja að svo stöddu um framhaldið. „Við ákváðum að reyna að nýta þekkingu okkar og reynslu í þessum geira þótt tímarnir séu viðsjárverðir og óvissa ríki. Við gerum okkur því engar væntingar um að fara af stað strax með einhverja starfsemi en ætlum að byggja upp traust og heiðarlegt ferðaþjónustufyrirtæki smám saman. Þetta er gert af hugsjóninni einni saman, ég er atvinnulaus og hef verið síðan félagið fór í þrot. Ég vil ekki segja að ég sé í atvinnuleit - frekar að ég sé í atvinnuhöfnunarferli og það er engum manni hollt lengi!“ segir Baldvin Esra Einarsson.