Fara í efni
Fréttir

Rut og Brynjar Ingi kosin best hjá KA

Brynjar Ingi Bjarnason og Rut Arnfjörð Jónsdóttir. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir, burðarás í meistaraliði KA/Þórs í handbolta, var kjörin íþróttakona Knattspyrnufélags Akureyrar 2021 og íþróttakarl KA 2021 var kjörinn Brynjar Ingi Bjarnason, knattspyrnumaður.

Greint var frá niðurstöðum KA-kjörsins í dag í þætti sem sendur var út á heimasíðu félagsins, þar sem 94 ára afmæli KA var fagnað. Einnig var tilkynnt um þjálfara ársins og lið ársins.

  • Rut var kjörin besti leikmaður Íslandsmótsins, handboltakona ársins af HSÍ og varð í níunda sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins.
  • Brynjar Ingi lék fyrri hluta sumars með KA en var síðan seldur til liðs Lecce á Ítalíu. Þá sló Brynjar í gegn með A-landsliðinu, þar sem hann festi sig í sessi. Undir lok árs var svo tilkynnt um önnur vistaskipti Brynjars Inga, þegar norska félagið Vålerenga keypti hann frá Ítalíu.
  • Andri Snær Stefánsson, þjálfari handboltaliðs KA/Þórs, var þjálfari ársins hjá KA.
  • Lið ársins var KA/Þór enda vann liðið allt sem hægt var að vinna á síðasta ári; Stelpurnar okkar urðu Íslands- og bikarmeistarar, einnig deildarmeistarar – með því að verða efstar í deildarkeppninni, áður en úrslitakeppnin hófst – og þá varð liðið Meistari meistaranna, eftir sigur á Fram við upphaf síðasta keppnistímabils.

Brynjar Ingi Bjarnason og Rut Arnfjörð Jónsdóttir, íþróttafólk KA 2021. Mynd bætt við mánudag 10. janúar, eftir að hún birtist á heimasíðu KA.

Meistaralið KA/Þórs í handbolta – langbesta lið landsins á síðasta keppnistímabili. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Andri Snær Stefánsson, þjálfari ársins hjá KA, ásamt aðstoðarmönnum sínum, Sigþóri Árna Heimissyni, til hægri, og Agli Ármanni Kristinssyni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.