Fara í efni
Fréttir

Rúnar Sigurpálsson Akureyrarmeistari

Rúnar Sigurpálsson og Andri Freyr Björgvinsson að lokinni skákinni í gær. Mynd af vef Skákfélags Akureyrar.

Rúnar Sigurpálsson varð Akureyrarmeistari í skák í gær þegar hann sigraði Andra Frey Björgvinsson.

Fyrri skák þeirra félaga lauk með jafntefli og ef aftur hefði orðið jafnt hefði þurft að útkljá titilbaráttuna í styttri skákum. „Til upprifjunar minnum við á að þeir félagar urðu jafnir og langefstir á Skákþingi Akureyrar sem hófst í janúarlok,“ segir á vef Skákfélags Akureyrar.

Rúnar varð einnig meistari á síðasta ári og mun þetta vera í sjötta sinn sem hann vinnur þennan eftirsótta titil. Hann er hefur einnig orðið hraðskákmeistari Akureyrar þessi tvö ár og reyndar unnið flest mót sem hann hefur tekið þátt í á vegum félagsins undanfarin ár.