Fara í efni
Fréttir

Rúmlega 500 kandídatar brautskráðir frá HA

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, lengst til hægri. Myndir af vef skólans
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, lengst til hægri. Myndir af vef skólans

Rúmlega 500 kandidatar voru brautskráðir frá Háskólanum á Akureyri um helgina; á föstudaginn kandídatar af framhaldsnámsstigi og á laugardag kandídatar í grunnnámi. Þetta kemur fram á vef skólans.

Eftir tveggja ára gesta-hlé gátu kandídatar aftur boðið með sér gestum á athafnirnar en athöfnunum var einnig streymt á Facebook og YouTube-rás háskólans. 

Frelsið er dýrmætt

Í ræðu sinni gerði Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri frelsi að umræðuefni: „Eitt af því sem faraldurinn hefur kennt okkur er að kunna að meta það frelsi sem við öll höfum í okkar lýðræðissamfélagi. Sú skerðing á frelsi sem varð að vera á verstu dögum faraldursins sýndi okkur að slíkt ástand myndum við almennt ekki vilja búa við – og samt eru samfélög í heiminum í dag þar sem frelsi einstaklingsins er verulega takmarkað. Þið hafið nú reynt það á eigin skinni hversu dýrmætt þetta frelsi er. Það er því mjög mikilvægt að þið deilið þessari reynslu með framtíðarkynslóðum sem vonandi munu ekki upplifa slíkt hið sama, og gætið þess að gleyma ekki erfiðleikum faraldursins.“

Á vef skólans segir jafnframt: Brautskráning er einskonar uppskeruhátíð háskólastarfsins og það var augljóst að kandídatar og fjölskyldur þeirra kunnu að meta að mega aftur taka þátt í fjölmennum viðburðum. Rektor talaði um að allir landsmenn gætu verið stoltir af Háskólanum á Akureyri og bætti við „Háskólinn er landsmanna allra og líklegast ein best heppnaða aðgerð stjórnvalda til þess að stuðla að breytingum og nýjum tækifærum í íslensku háskólaumhverfi ásamt því að sýna að hægt er að byggja upp öflugar stofnanir frá grunni utan Vatnsmýrarinnar.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ávarpar Háskólahátíð um helgina.

Þórólfur í öðru hlutverki

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var heiðursgestur Háskólahátíðar 2022 og ávarpaði kandídata. Hann sagði það að ávarpa kandídata nýja áskorun: „Hvað get ég sagt gáfulegt við þetta unga fólk? Á ég segja reynslusögur? Brandara? Leggja þeim lífsreglurnar? Vara við þeim hættum og ógnum sem bíða þeirra? Benda þeim á öll tækifærin sem felast í lífinu? Hvetja þau til dáða og að láta hjartað ráða för? Eða á ég að biðjast afsökunar á því að hafa tekið þátt í að hafa af þeim viðburðaríkt og þroskandi félagslíf á undangengnum tveimur árum með þeim takmarkandi aðgerðum sem settar voru á í Covid-19 faraldrinum?“

Þórólfur rifjaði upp kandídatsár sín á Akureyri og þeim tímamótum sem hann þá ásamt fjölskyldu sinni stóð frammi fyrir: „Eftirleikurinn í mínu tilviki varð síðan fjölbreyttur og farsæll að mínu mati þar sem að ég elti drauma mína og minnar fjölskyldu til útlanda og innanlands og þannig reyndi ég af fremsta megni með fjölskyldunni að njóta allra þeirra tækifæra sem buðust.“

Að lokum biðlaði Þórólfur til kandídata að nýta þau tækifæri sem þeim gæfust. En einnig að njóta vegferðarinnar en ekki bara þegar markmiðinu er náð. „Verið einnig óhrædd við að láta reyna á getu ykkar og hæfileika, jafnvel á þeim sviðum sem þið teljið að þið hafið litla hæfileika. Oft munuð þið komast að því að þið getið meira en þið hélduð. Þetta á einmitt við um mig í dag haldandi þessa hátíðarræðu,“ sagði Þórólfur í hátíðarræðu sinni á Háskólahátíð 2022.

Frá vinstri: Hugrún Sigurðardóttir, kandídat í hjúkrunarfræði, Oddur Þór Vilhelmsson, forseti Viðskipta- og raunvísindasviðs, Sigríður Sía Jónsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, Þórólfur Guðnasson, sóttvarnalæknir og heiðursgestur, Eyjólfur Guðmundsson rektor.

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í grunnnámi hlutu eftirtaldir:

Hjúkrunarfræðideild:

 • Anna Kristín Einarsdóttir og Vilborg Anna Jóhannesdóttur voru með jafna hæstu meðaleinkunn í hjúkrunarfræði og hlutu viðurkenningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þær hlutu jafnframt viðurkenningu frá KEA fyrir hæstu meðaleinkunn í grunnnámi á Heilbrigðisvísindasviði.
 • Klara Björnsdóttir hlaut viðurkenningu frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands eystra fyrir bestan námsárangur í samfélagshjúkrun.

Iðjuþjálfunarfræðideild:

 • Aldís Anna Höskuldsdóttir hlaut viðurkenningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, Kristnesi, fyrir hæstu meðaleinkunn til BS-gráðu í iðjuþjálfunarfræði.
 • Dagbjört Héðinsdóttir hlaut viðurkenningu frá Iðjuþjálfafélagi Íslands fyrir hæstu meðaleinkunn í iðjuþjálfun til starfsréttinda.

Félagsvísindadeild:

 • Elísabet Ósk Maríusdóttir BA lögreglu- og löggæslufræði.

Kennaradeild:

 • Tveir kandídatar með nákvæmlega sömu meðaleinkunn: Álfey S. Arnfjörð Haraldsdóttir BEd kennarafræði og Jónas Aron Ólafsson BEd kennarafræði.

Lagadeild:

 • Aðalheiður Kristjánsdóttir BA lögfræði

Sálfræðideild:

 • Bjarni Ívar Rúnarsson BA sálfræði

Auðlindadeild:

 • Magnea Jóhannsdóttir BS í sjávarútvegsfræði

Viðskiptadeild:

 • Hanna Rún Jónsdóttir BS í viðskiptafræði

Tölvunarfræði HR við HA:

 • Rúnar Vestmann

Hæsta meðaleinkunn meistaranema við HA:

 • Magdalena Berglind Björnsdóttir MT kennarafræði

Önnur verðlaun:

 • Karítas Ágústsdóttir verðlaun frá Landssambandi lögreglumanna fyrir hæstu meðaleinkunn í diplómanámi fyrir verðandi lögreglumenn.
 • Thelma Hrund Hermannsdóttir verðlaun frá Zontaklúbbi Akureyrar fyrir framúrskarandi ritgerð sem fjallar um málefni kvenna.
 • Elísabet Ósk Maríusdóttir viðurkenningu frá Ríkislögreglustjóra fyrir hæstu meðaleinkunn í BA námi í lögreglu- og löggæslufræði.
 • Maria Finster Úlfarsson, sem brautskráðist í febrúar, hlaut verðlaun frá Zontaklúbbnum Þórunn hyrna, fyrir framúrskarandi ritgerð sem fjallar um málefni kvenna.

Góðvinir

Í 18. skipti veittu Góðvinir Háskólans á Akureyri, félag brautskráðra stúdenta við HA og annarra velunnara háskólans, viðurkenningar til kandídata sem hafa sýnt góðan námsárangur og óeigingjarnt starf í þágu háskólans á meðan á námstíma stóð. Þrír hlutu heiðursverðlaun Góðvina að þessu sinni:

 • Framhaldsnám: Sonja Finnsdótir, iðjuþjálfun - Starfsréttindanám á meistarastigi
 • Heilbrigðisvísindasvið: Eva María Mattíhasardóttir, BS í hjúkrunarfræði
 • Hug- og félagsvísindasvið: Sólveig Birna Halldórsdóttir Elísabetardóttir, B.Ed. í kennarafræði
 • Viðskipta- og raunvísindasvið: Særún Anna Brynjarsdóttir, BS í viðskiptafræði