Fara í efni
Fréttir

Ilva og Rúmfatalagerinn opna á Norðurtorgi 1. júní

Starfsemi hefst í verslunarkjarnanum Norðurtorgi á Akureyri 1. júní, þegar verslanir Rúmfatalagersins og Ilvu verða opnaðar.

Gamla Sjafnarhúsið að Austursíðu 2, nyrst í bænum, hefur tekið stakkaskiptum undanfarna mánuði. Blaðamaður skoðaði húsnæðið í fylgd feðganna Péturs Bjarnasonar, annars eigenda Klettáss, félagsins sem á Norðurtorg, og Ara Péturssonar, verkefnastjóra Klettáss. 

  • Verslanir Ilvu og Rúmfatalagersins verða á aðalhæð Norðurtorgs; gengið verður inn í sameiginlegt anddyri verslananna tveggja af bílastæðinu vestan við húsið.
  • Viðræður standa yfir við forráðamenn ónefnds fyrirtækis um að opna stóra matvöruverslun á sömu hæð Norðurtorgs – í 3.500 fermetra rými – að sögn Péturs. Ekki er ljóst hvort af þeim samningi verður og þá hvenær sú verslun verður opnuð. 
  • Margir hafa sýnt því áhuga, að sögn feðganna, að stunda ýmiskonar starfsemi á Norðurtorgi. Verði ekki af því að matvörsluverslun verði í nefndu rými (þótt það hljómi þannig að líklega verði af því) er ekki ljóst hvað verður þar. Þeir hafa ekki viljað ganga frá samningum vegna nokkurra annarra rýma í húsinu fyrr en þetta liggur ljóst fyrir; vilja sá heildarmyndina áður.

  • Hraðhleðslustöð fyrir Tesla bifreiðar verður tekin í notkun á lóð Norðurtorgs, sú fyrsta á Akureyri, sama daga og verslanir Ilvu og Rúmfatalagersins verða opnaðar.
  • Húsið hefur verið stækkað til vesturs, um tæplega 2.000 fermetra. Það er nú alls um 11.000 fermetrar.
  • Um 450 bílastæði verða á lóðinni.
  • Ekki kom til greina að byggja verslunarkjarna annars staðar, að sögn Péturs, í stað þess að breyta þessu húsi. „Þessi staðsetning er frábær,“ segir hann.
  • Að sögn Ara hafa 30 til 40 manns verið í vinnu á svæðinu síðan um mitt ár í fyrra. Rifnir hafa verið niður veggir í stórum stíl, enda var húsið byggt sem efnaverksmiðja og mikið um lítil rými.
  • Pétur segir að teknar hafi verið niður tugir alls kyns hurða, fjöldi klósetta, ofna og alls kyns hluta. „Við reynum að endurnýta þetta allt; höfum látið bæði vini og ýmsa aðra hafa ýmislegt og hér er margt eftir. Ef einhvern langar í eitthvað má hann alveg hafa samband!“
  • Maður nokkur fékk að eiga 16 forsteypar einingar, hluta útveggja hússins fyrir breytingar, og hyggst nota þær við húsbyggingu!
  • Verkfræðistofan Verkís hefur verið með skrifstofu á efstu hæð hússins við Austursíðu og verður þar áfram. Verkís sér um verkefnastjórn við framkvæmdir á svæðinu.
  • Klettás á alla lóðina við Austursíðu – 4 hektara, norður að Síðubraut. Félagið er með hugmyndir um ýmiskonar starfsemi á svæðinu. Það hefur til dæmis sýnt því áhuga að önnur heilsugæslustöðin, sem reisa á í bænum, verði staðsett á lóðinni.

Að ofan: Feðgarnir Ari Pétursson og Pétur Bjarnason. 

Margir muna án efa eftir þessum stóru, forsteyptu einingum, sem voru útveggir hússins vestanmegin. Nokkrir hafa verið fjarlægðir og allir fara, enda búið að byggja við húsið þarna megin og einingarnar nýtast annars staðar.

Horft að Norðurtorgi frá þjóðvegi 1.