Fara í efni
Fréttir

Röskun á flugi hefur neikvæð áhrif víða

Röskun á flugi hefur neikvæð áhrif víða

Mikil röskun hefur verið á innanlandsflugi í sumar og haust, ferðir hafa verið felldar niður með stuttum fyrirvara og mikið verið um seinkanir. Bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri hafa rætt við stjórnendur stofnana og fyrirtækja í bænum og segja ljóst að áhrifanna gæti víða, „sérstaklega hjá stofnunum og fyrirtækjum sem sinna heilbrigðisþjónustu hér í Eyjafirði og nærsvæðum,“ segja Sunna Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson í grein sem birtist á Akureyri.net í dag.

Þau fengu upplýsingar hjá samskiptasviði Icelandair:

  • Fyrstu sex mánuði 2022 voru 965 flug til Akureyrar á réttum tíma, 410 ferðum seinkaði um 15 mínútur eða meira og 143 flug voru felld niður.
  • Fyrstu sex mánuði 2019 voru 1481 flugferðir til Akureyrar á réttum tíma, 119 ferðum seinkaði um 15 mínútur eða meira og 75 flug voru felld niður.

Áhrifa gætir víða

„Sú röskun á starfi sem verður þegar sérfræðilæknar geta ekki reitt sig á flugsamgöngur var sérstaklega nefnd í þessu samhengi,“ segja Sunna og Gunnar. „Í samtölum okkar við forsvarsfólk fyrirtækja í einkageiranum kom einnig fram að minnkandi traust til innanlandsflugsins hefur í einhverjum tilvikum leitt til neikvæðra breytinga á starfsemi þeirra á Norðurlandi. Dæmi um slík raunveruleg áhrif er þegar fyrirtæki sjá sig tilneydd að fjölga frekar í starfsmannahópum fyrir sunnan eða þegar norðlensk fyrirtæki hika við að bjóða í verk fyrir sunnan. Auk þess nefndu fyrirtæki aukinn kostnað við launagreiðslur vegna seinkana á flugi.“

Sunna og Gunnar hafa óskað eftir því að þetta mál verði tekið upp á næsta fundi bæjarstjórnar Akureyrar.

Smellið hér til að lesa grein Sunnu og Gunnars.