Fara í efni
Fréttir

Ríkið gerði ekki ráð fyrir bílakjallara

Skipulagsráð Akureyrar hefur hafnað ósk ríkisins þess efnis að ekki verði gert ráð fyrir bílakjallara undir heilsugæslustöð sem á að byggja við Þingvallstræti, vestast á bílastæðinu við Icelandair hótelið. Ráðið segir að bílakjallari sé forsenda fyrir heilsugæslustöð á þessum stað.

Framkvæmdasýsla – Ríkiseignir (FSRE) segir í bréfi til Akureyrarbæjar að ekki hafi verið gert ráð fyrir kostnaði við bílakjallara, í heildarkostnaði við bygginguna!

Í bréfinu, sem dagsett er 16. mars síðastliðinn segir: „Ástæðan fyrir þessum breytingum er sú að í frumathugun, sem undirrituð var þann 25.3.2021, er gert ráð fyrir heildarkostnaði miðað við 1.706 m2 byggingu undir heilsugæslu. Þá er ekki gert ráð fyrir kostnaði við bílakjallara sem er heimilaður skv. deiliskipulagi á umræddri lóð. Eins og gefur að skilja er kostnaður við jarðvinnu og byggingu á kjallara töluverður sem ekki er gert ráð fyrir í fjárframlög til verkefnisins.“

Vilja stækka lóðina

FSRE lagði fram tillögur að mögulegri breytingu:

  • Tillaga 1 gerir ráð fyrir stækkun á lóð til suðurs þar sem hægt er að bæta við bílskýli, hjólaskýli auk viðbótar bílastæði, samtals 59 bílastæði á lóð.
  • Tillaga 2 gerir ráð fyrir að hægt verði að byggja hluta bílastæða m.a. fyrir læknabíl, undir þaki og með einhverjum skjólveggjum þar sem það á við. Þetta yrði því opin bílgeymsla undir hluta byggingarinnar. Samtals um 57 bílastæði innan lóðar.

Nei!

Skipulagsráð hafnaði erindinu sem fyrr segir. Í fundargerð ráðsins segir:

„Skipulagsráð lýsir yfir vonbrigðum með að ekki sé vilji til að gera ráð fyrir bílakjallara undir heilsugæslunni eins og miðað hefur verið við frá því að skipulagsvinna á svæðinu hófst veturinn 2020-2021. Að mati skipulagsráðs er bílakjallari forsenda fyrir byggingu heilsugæslustöðvar á þessu svæði. Skipulagsráð hvetur hlutaðeigandi eindregið til þess að að gera ráð fyrir umræddum kostnaði við uppbyggingu heilsugæslunnar svo ekki verði tafir á framvindu verkefnisins enda ótækt að heilsugæslan búi lengur við núverandi húsnæðiskost.“

Mynd sem birt var þegar breyting á deiluskipulagi fyrir svæðið var auglýst í apríl á síðasta ári.