Fara í efni
Fréttir

Reyna að skilja mannlegt minni!

Reyna að skilja mannlegt minni!

Rannsakendur við Háskólann á Akureyri vinna nú í samstarfi við rannsakendur við Háskólann í Zürich í Sviss (UZH) að verkefni með það að markmiði að öðlast betri skilning á mannlegu minni.

Verkefnið mun taka um það bil ár og rannsakendur þarfnast þátttakenda sem staðsettir eru á Akureyri til að taka þátt í tilraununum. Allir sem hafa náð 18 ára aldri og hafa íslensku að móðurmáli geta tekið þátt og hljóta gjafabréf á Glerártorg fyrir þátttökuna. Rannsóknasjóður HA hefur styrkt verkefnið, meðal annars til að greiða rannsóknarþátttakendum.

  • Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt eru hvattir til að hafa samband ​með því að senda tölvupóst á netfangið ha190147@unak.is

Gæti langtímaminni aukið geymslugetu vinnsluminnis?

Verkefnið beinist að því að skoða hvernig fyrirliggjandi þekking fólks styður við vinnsluminni þeirra. Vinnsluminni er kerfi sem stuðlar að færni eins og lestri, lausn vandamála, stærðfræði og ákvarðanatöku. Eitt af helstu eiginleikum vinnsluminnisins er takmörkuð geymslugeta þess en eitt af markmiðum verkefnisins er að skoða hvernig langtímaminni gæti aukið geymslugetu vinnsluminnis.

Undanfarnar vikur hafa rannsakendur frá Sviss heimsótt Akureyri til að undirbúa söfnun á taugalífeðlisfræðilegum gögnum, þ.e.a.s. heilavirkni. Til að safna þessum gögnum verður notast við heilalínuritunarbúnað (EEG) sem tilheyrir Sálfræðideild Háskólans á Akureyri. Lea Bartsch rannsakandi við Háskólann í Zürich hlaut styrk frá SNF (Svissnesku Vísindastofnuninni) í samstarfi við Peter Shepherdson, dósent við HA, til að sinna verkefninu og meðal annars greiðir styrkurinn ferðakostnað milli Sviss og Íslands. Þar að auki hefur Lena Sesseljudóttir nemandi við HA hlotið styrk frá Rannís úr Nýsköpunarsjóði námsmanna. Lena hefur unnið að verkefninu í sumar þar sem hún hefur hannað tilraunir, leiðbeint þátttakendum í gegnum þær og lært að nota EEG búnaðinn; sem keyptur var fyrir styrk frá Innviðasjóði Rannís.

Enn vantar nokkra þátttakendur

Lena sagði í samtali við Akureyri.net að fyrsti þátttakandinn hafi tekið þátt í tilrauninni 20. júlí sl. og bætir við: „Tilraunin sem við erum með í gangi núna notast reyndar ekki við heilalínuritunarbúnaðinn en við erum að fara að byrja með aðra tilraun á næstu vikum sem mun notast við búnaðinn. Sú tilraun er náskyld þeirri sem er í gangi núna og skoðar einnig vinnsluminni.“ Yfirstandandi rannsókn er vel á veg komin en enn vantar nokkra þátttakendur.

Notast er við Bayesíska tölfræði til að greina gögnin sem þýðir að ekki er fast viðmið fyrir fjölda þátttakenda.

Fyrir EEG tilraunina þarf helst 30 þátttakendur og mögulega verða tvær EEG tilraunir í gangi og þá þyrftu 30 þátttakendur fyrir hvora þeirra.

Um tímalengd hvorrar tilraunar segir Lena Dís: „Sú sem við erum að keyra núna tekur um 30-40 mínútur en EEG tilraunirnar munu líklegast taka u.þ.b. tvær klukkustundir.“ Þátttakendur fá 2000 króna gjafabréf í Glerártorg fyrir styttri tilraunina en 4000 króna gjafabréf fyrir að taka þátt í EEG tilraununum.

„Við vonumst til að ná að gefa út niðurstöður á næstu 12 mánuðum,“ segir Lena Dís en það veltur á því hversu skýr gögn fást og hvort þörf sé á fleiri tilraunum.