Rennibrautinni hefur verið lokað öðru sinni

Rennibraut við Naustaskóla sem Akureyri.net sagði frá í morgun hefur verið lokað. Rennibrautin var varasöm vegna skemmda sem unnar voru á henni; um rör er að ræða, stórt gat hafði verið brotið á þykkt plast neðarlega í brautinni og aðstæður voru þannig að barn sem renndi sér hratt hefði getað slasast ræki það handlegg út um gatið á leiðinni niður.
Starfsmenn Akureyrarbæjar telja að skemmdarverkið hafi verið unnið með steinhellu. Þeim hafði áður verið gert viðvart og voru búnir að loka efra opi rennibrautarinnar einu sinni en einhver hefur tekið sig til og fjarlægt farartálmann. Starfsmenn bæjarins fóru því á vettvang á ný í dag og lokuðu efra opinu kirfilega.
Samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarbæ er búið að panta varahlut í rennibrautina og verður hún lokuð þangað til viðgerð lýkur.
- Frétt Akureyri.net í morgun: Varasöm rennibraut við Naustaskóla
Hluti plastsins í neðsta hluta rennibrautarinnar hefur verið fjarlægður.