Fara í efni
Fréttir

Rannsaka „meiriháttar“ líkamsárás á Akureyri

Séð yfir Glerártorg og bílastæðið þar sem ráðist var á piltinn. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur sl. sólarhring haft til rannsóknar „meiriháttar líkamsárás, rán og eignaspjöll“ sem áttu sér stað á bifreiðastæði við verslunarmiðstöðina Glerártorg á sunnudagskvöldið. Lögreglan greinir frá þessu á Facebook síðu sinni.

Veist var að 16 ára pilti „með hamri og hann sleginn í höfuðið auk þess að bifreið, sem hann var farþegi í, var skemmd. Sex piltar fæddir frá 2003 til 2005 voru handteknir vegna málsins og voru þeir vistaðir í fangahúsi vegna gruns um aðild að málinu.

Fjöldi yfirheyrslna hafa verið framkvæmdar vegna málsins og lauk þeim að mestu í gærkvöldi með aðstoð barnaverndarfulltrúa. Þá var einnig rætt við vitnin í gær og leitir framkvæmdar í bifreið og húsnæði. Við leit fannst hamar sem talinn er tengist málinu.

Rannsókninni miðar vel og er hún langt á veg komin. Málsatvik eru nokkuð ljós og voru hinir handteknu látnir lausir að loknum yfirheyrslum í gærkvöldi,“ segir í Facebook færslu lögreglunnar.