Fara í efni
Fréttir

Rammgerð bankahólf eru barn síns tíma

Arnar Páll, útibússtjóri Landsbankans á Akureyri, við skrifborð Jóns G. Sólnes í hvelfingunni þar sem bankahólfin eru. Skrifborðið var smíðað af Ólafi Ágústssyni, líklega um 1935 til 40. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Landsbankinn á Akureyri mun hætta að leigja út bankahólf þegar bankinn flytur starfsemi sína í nýtt húsnæði á næsta ári. Þjónustan er barn síns tíma, segir útibússtjórinn.

Í kjallara Landsbankans við Ráðhústorg er að finna rammlæst herbergi sem hefur að geyma 512 bankahólf sem viðskiptavinir bankans hafa getað tekið á leigu undir verðmæti. Elstu hólfin eru nærri 70 ára gömul og eru steypt inn í vegg hvelfingarinnar. Einnig eru þar nýrri hólf í stæðum. Mörg elstu hólfin eru nú þegar orðin ónothæf þar sem ekki er lengur hægt að kaupa varahluti í læsingar þeirra. 

Enginn veit hvað er geymt í bankahólfunum nema leigutakar hólfanna. Hægt er að loka sig af í litlum litlum herbergjum þegar verið er að tæma og setja í hólfin.

„Það verður eftirsjá af þessu húsi enda hefur Landsbankinn verið hér við Ráðhústorgið síðan 1954. En húsið verður hérna áfram og við erum full tilhlökkunar að fara í nýtt húsnæði,“ segir Arnar Páll Guðmundsson, útibússtjóri Landsbankans á Akureyri. Samfara flutningnum verða ákveðnar breytingar m.a. munu bankahólfin ekki fylgja Landsbankanum yfir í nýtt húsnæði við Skipagötu og þjónustan leggst af við flutningana.

Geymslur fyrir verðmæti

„Menn voru að geyma í þessum hólfum verðmæti eins og peninga, verðbréf, hlutabréf og skuldabréf, en þetta er mikið komið á rafrænt form í dag. Þessi þjónusta er því barns síns tíma og fellur ekki lengur undir hefðbundna bankastarfsemi eins og hún er í dag,“ segir Arnar Páll spurður um ástæðuna fyrir því að Landsbankinn á Akureyri mun fljótlega hætta að bjóða upp á þessa þjónustu. Fleira hefur líka breyst á þeim tæplega 70 árum sem bankinn hefur verið í húsinu. Sjaldgæfara er að fólk hafi reiðufé á milli handanna nú til dags. Áður fyrr voru laun t.d. gjarnan greidd út í seðlum og þá fannst mörgum gott að hafa örugga geymslu undir peningana.

Hvelfingin sem bankahólfin eru staðsett í er vissulega myndræn. Viðskiptavinir fá ekki að fara þangað inn nema þeir séu með bankahólf leigu en árgjald er greitt eftir stærð hólfanna. Þá fær enginn að fara þangað niður nema í fylgd starfsmanns bankans sem þarf að opna tvær traustar hurðir inn í hvelfinguna. Á hverju bankahólfi er tvöfalt lásakerfi, bankinn geymir annan lykilinn en leigutaki hinn. Kvitta þarf skriflega fyrir komuna í þar til gerða spjaldskrá við skrifborð í miðju herberginu en skrifborðið var í eigu fyrrum alþingismanns og útibússtjóra Landsbankans á Akureyri, Jóns G. Sólnes.

Skartgripir, erfðaskrár og filmur

Þó Arnar segi að hólfin séu barn síns tíma þá hefur verið töluverð ásókn í að leigja þau, en heimsóknir í hólfin eru þó ekki tíðar. „Margir sem eru með hólf á leigu hér hafa ekki heimsótt þau í mörg ár,“ segir Arnar og bætir við að bankinn hafi engar upplýsingar um það hvað fólk geymi í hólfunum, enda þurfa leigutakar ekki að gera grein fyrir notkuninni þegar hólf er tekið á leigu. Stærð hólfanna takmarkar hins vegar notkun þeirra enda voru hólfin upphaflega hugsuð fyrir pappíra á borð við verðbréf. „Ég reikna með að einhverjir séu að geyma skartgripi í hólfunum, erfðaskrár eða önnur skjöl, peninga, ljósmyndafilmur, fjölskyldu gersemar og tölvugögn. Við vitum ekki hvað er í hólfunum og þurfa leigutakar því að tryggja innihald þeirra sérstaklega sjálfir en við hins vegar verjum hólfin með öryggiskerfum bankans.“

Traustar hurðir eru að bankahólfunum.

Aðrar geymslulausnir til

Þeim sem eru með hólf á leigu hjá Landsbankanum á Akureyri verður gert viðvart skriflega með góðum fyrirvara hvenær þarf að vera búið að tæma hólfin. Verði einhver hólf ótæmd þegar bankinn flytur úr húsinu verða þau opnuð í viðurvist sýslumanns og innihaldið sett í innsiglaðar umbúðir sem bankinn varðveitir í ákveðinn tíma. „Það eru enn til bankahólf í mörgum útibúum Landsbankans, t.d. á Húsavík, Ísafirði og Egilsstöðum, en við erum eini bankinn á Akureyri sem enn er að bjóða upp á svona geymsluhólf, aðrir bankar hér í bænum eru hættir eða eru að hætta að bjóða upp á þetta. Í Reykjavík eru öll bankahólf Landsbankans komin í útibú bankans í Breiðholti,“ segir Arnar.

Hann bendir þeim sem eiga eftir að sjá á eftir bankahólfunum á Akureyri á aðrar lausnir sem eru meira í takt við nútímann. „Tölvugögn er t.d. hægt að geyma í ýmsum ský lausnum og þá er t.d. hægt að kaupa eldtraust hólf í byggingavöruverslunum. Þessi hólf eru ekki orðin svo dýr í dag. Mörg heimili eru orðin vöktuð þar sem margir eru komnir með eftirlitsmyndavélar og þjófavarnarkerfi við heimili sín. Það var í rauninni upphaflega konsept bankanna að þú gætir geymt verðmæti undir eftirliti. En tímarnir eru breyttir og aðrar lausnir komnar sem leysa bankahólfin af.“